Hoppa yfir valmynd
1. september 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Utanríkisráðherra ávarpar loftslagsráðstefnu í Alaska

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ávarpaði í gær ráðstefnuna GLACIER, sem fjallar um loftslagsmál og norðurslóðir, í Alaska. Ráðstefnan var haldin af utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna í samvinnu við Hvíta Húsið og stofnanir með ábyrgð á málefnum Norðurslóða, en Bandaríkin eru formennskuríki í Norðurskautsráðinu næstu tvö árin. Var utanríkisráðherrum Norðurskautsríkjanna og áheyrnarríkjum boðið til ráðstefnunnar auk frumbyggja og annarra hlutaðeigandi aðila.

Í umræðum ræddi utanríkisráðherra mikilvægi þess að ríki heims kæmu sér saman um metnaðarfullan loftslagssamning í París síðar á árinu og nauðsyn þess að málefnum norðurslóða verði haldið til haga, enda séu neikvæð áhrif hlýnunar loftslags sérstaklega áberandi á norðurslóðum. Þá greindi ráðherra frá landsmarkmiðum Íslands, í samstarfi við Noreg og ríki Evrópusambandsins, um 40% minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030.
Á ráðstefnunni var samþykkt yfirlýsing um mikilvægi þess að ríki norðurslóða tækju virkan þátt í að hægja á hlýnun. Loftslagsbreytingar væru mikil áskorun fyrir svæðið og heiminn allan.
Ráðstefnunni var lokað með ræðu Barack Obama, forseta Bandaríkjanna sem hvatti þjóðir heims til aðgerða gegn hlýnun loftslags.
Utanríkisráðherra átti einnig samtal við John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ræddu ráðherrarnir loftslagsmál og tvíhliða samskipti ríkjanna, meðal annars á sviði öryggismála.
Þá átti utanríkisráðherra stuttan fund með Yun Byung-se, utanríkisráðherra Suður Kóreu. Ræddu ráðherrarnir meðal annars tækifæri til aukinna viðskipta á milli landanna og samstarf á norðurslóðum, en Suður Kórea er áheyrnaraðili að Norðurskautsráðinu.
Einnig ræddi Gunnar Bragi við öldunagardeildarþingmann Alaska, Lisa Murkowski, um möguleika til samstarfs á sviði orkumála og norðurslóðasamvinnu.
Ræða utanríkisráðherra Yfirlýsing um loftsagsmál

Í erindi sínu fjallaði Gunnar Bragi um mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa til að sporna við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Tiltók ráðherrann sérstaklega möguleikana sem felast í jarðhitanýtingu til orkuöflunar og orkuöryggis og reynslu Íslands þar að lútandi. Gunnar Bragi fjallaði einnig um málefni hafsins og nauðsyn þess að viðhalda hreinleika þess og sporna við súrnun sjávar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta