Hoppa yfir valmynd
7. september 2015 Utanríkisráðuneytið

Gunnar Bragi fundar með fulltrúa ÖSE um frelsi fjölmiðla 

Gunnar Bragi og Dunja Mijatovic fulltrúi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, um frelsi fjölmiðla
Gunnar Bragi og Dunja Mijatovic

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Dunja Mijatovic, fulltrúa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, um frelsi fjölmiðla. Mijatovic er stödd í heimsókn á Íslandi í dag og á morgun. 

Gunnar Bragi lýsti eindregnum stuðningi Íslands við starf Mijatovic, sem byggir á því að standa vörð um tjáningarfrelsið, og því að frjálsir, óháðir og fjölbreyttir fjölmiðlar eru forsenda þess að lýðræði fái þrifist og stjórnvöldum sé sýnt nauðsynlegt aðhald. 

Á fundinum ræddu þau meðal annars fjölmiðlaumhverfið á Íslandi, þær breytingar sem orðið hafa vegna umræðu á netinu og samfélagsmiðlum og hvernig best má vinna á jákvæðan hátt í þessu nýja umhverfi. Þá ræddu þau stöðuna hjá fjölmiðlum í Rússlandi og Úkraínu, en Mijatovic hefur gagnrýnt áróðursstríðið í Rússlandi og Úkraínu en einnig leitt saman úkraínska og rússneska fjölmiðlamenn og komið á samtali þeirra. Þá ræddu þau hvernig of ströng meiðyrðalöggjöf geti leitt til sjálfsritskoðunar og hvernig kvenkyns fjölmiðlamenn þurfa í vaxandi mæli að þola hótanir um kynferðisofbeldi.

Mijatovic fundar m.a. með ráðherrum, alþingismönnum, blaðamönnum og embættismönnum á meðan dvöl hennar stendur og mun ennfremur halda opinn fyrirlestur í Háskóla Íslands um Ógnir við tjáningarfrelsi í fjölmiðlum og á internetinu. Fyrirlesturinn er haldinn á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, í samstarfi við utanríkisráðuneytið og fjölmiðlanefnd, og verður mánudaginn 7. september kl. 12:15 til 13:30 í fundarsal Þjóðminjasafnsins. Í erindi sínu mun hún meðal annars ræða um hvernig áróðri er markvisst beitt í milliríkjaátökum og segja frá því hvernig öryggi blaðamanna og bloggara er víða ógnað, ekki síst kvenna sem starfa í fjölmiðlum.
Sjá nánar: https://www.facebook.com/events/163170950684256/


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta