Komið til móts við óskir um aukna þjónustu í heimabyggð
Löglærðum fulltrúum verður bætt við í umdæmum tveggja sýslumannsembætta landsins. Embættin á Norðurlandi eystra og á Austurlandi fá hvort um sig fjárveitingu til að ráða löglærða fulltrúa á skrifstofur embættanna samkvæmt tillögum þess efnis í fjárlagafrumvarpinu.
Hjá embættinu á Norðurlandi eystra verður ráðinn fulltrúi á sýsluskrifstofuna á Siglufirði og hjá embættinu á Austurlandi verður ráðinn fulltrúi á sýsluskrifstofuna á Eskifirði.
Sem kunnugt er var umdæmaskipan sýslumannsembætta breytt með lögum sem tóku gildi í byrjun ársins og var umdæmunum fækkað úr 24 í 9. Með fjölgun löglærðra fulltrúa hjá embættum sýslumanna er verið að koma til móts við óskir um aukna þjónustu í heimabyggð. Gert er ráð fyrir samanlagt 17 milljóna króna viðbótarfjárframlagi í fjárlagafrumvarpinu sem gerir embættunum kleift að ráða í þessar nýju stöður.