Fjölgun sérfræðinga og fleiri námsstöður í heilsugæslunni
Stefnt er að því að fjölga námsstöðum í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun og veita heilsugæslunni aukið fjármagn til að ráða í fleiri sérfræðingsstöður í heimilislækningum eða aðrar stöður heilbrigðisstarfsfólks. Til þessa verður varið rúmum 220 milljónum króna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.
Framlög til heilsugæslu á landsvísu voru aukin um 50 m.kr. í fjárlögum þessa árs í því skyni að efla sérnám í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2016 er framlagið aukið um 36 m.kr. til að fjármagna fjórar nýjar stöður námslækna í heilsugæslu. Með auknum fjárveitingum árið 2015 og áformaðri aukningu á næsta ári fjölgar námsstöðum heimilislækna úr 13 stöður í 20 á tveimur árum.
Sérnám í heilsugæsluhjúkrun
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Háskólinn á Akureyri hófu á þessu ári samvinnu um að bjóða upp á nýja námsbraut fyrir hjúkrunarfræðinga sem vilja sérhæfa sig í heilsugæsluhjúkrun. Miðað var við að ráða í sex námsstöður á þessu ári en með auknu fé til verkefnisins samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs, samtals 27,2 m.kr. verður unnt að fjölga stöðunum um fjórar til viðbótar.
160 milljónir í átta nýjar sérfræðingsstöður
Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er lagt til að veita 160 milljónir króna til að fjármagna ráðningu á átta nýjum stöðum sérfræðinga í heimilislækningum, eða eftir atvikum aðrar stöður heilbrigðisstétta til heilsugæslunnar.
Gert ráð fyrir að framlag til heilsugæslu og heimahjúkrunar verði aukið samtals um tæpar 500 milljónir króna á næsta ári með áherslu á ýmis ný verkefni. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að fjárlagafrumvarpið endurspegli þá stefnu að efla heilsugæsluna þannig að hún geti staðið undir nafni sem fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu: „Heilsugæslan á að vera grunnstoðin í heilbrigðiskerfinu, líkt og áhersla er lögð á í áætluninni um Betri heilbrigðisþjónustu og öll þessi verkefni eru liður í því.“