Hoppa yfir valmynd
11. september 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Nærri 70 milljónum varið til að fjölga sálfræðingum í heilsugæslu

Heilsugæslan - Miðstöð heilsuverndar
Heilsugæslan - Miðstöð heilsuverndar

Stefnt er að því að fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslu um átta á næsta ári og verður tæpum 69 milljónum króna varið til þess samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Gangi þetta eftir verður unnt að bjóða sálfræðiþjónustu í heilsugæslu í öllum heilbrigðisumdæmum landins á næsta ári.

Í tengslum við áætlunina Betri heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðherra ýtti úr vör í byrjun síðasta árs er stefnt að því að efla þjónustu heilsugæslu í landinu og bæta aðgengi að henni. Liður í því er að efla þverfaglegt samstarf innan hennar og stuðla að breiðari sérfræðiþekkingu. Stöðugildi sálfræðinga í heilsugæslu á landsvísu eru nú 15 en verður fjölgað um átta á næsta ári og þar með verða stöðugildi sálfræðinga í heilsugæslu orðin 23 á landsvísu.

Unnið að breskri fyrirmynd um aukið aðgengi að sálfræðingum

Samkvæmt breskri fyrirmynd um aukið aðgengi að sálfræðingum „Improving Access to Psychological Therapies“ er áætlað að eitt stöðugildi sálfræðings þurfi á hverja 9.000 íbúa. Ef þessar tölur eru yfirfærðar á Ísland þýðir þetta að þörf er fyrir samtals 36,6 stöðugildi sálfræðinga í grunnþjónustu heilsugæslunnar. Á þessu er byggt í tillögu til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum sem heilbrigðisráðherra mun leggja fram á Alþingi á haustþinginu.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherraKristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir vilja sinn standa til þess að fjölga sálfræðingum til samræmis við þessi viðmið og fjölga þannig um 14 stöðugildi til viðbótar árin 2017-2018: „Það hefur lengi verið vitað að umtalsverður hluti fólks sem leitar til heilsugæslunnar glímir við vandamál þar sem menntun og þekking sálfræðinga gæti komið að góðum notum, svo sem vandamál eins og kvíði, þunglyndi, svefnvandamál og fleira mætti telja. Með þessu móti eflum við heilsugæsluna og sníðum þjónustu hennar betur að þörfum notenda. Á því leikur enginn vafi“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta