Ísland fær fulltrúa í framkvæmdastjórn Evrópuskrifstofu WHO
Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu, var í dag kjörinn í framkvæmdastjórn Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Tólf þjóðir eiga fulltrúa í stjórninni sem stýrir faglegum áherslum og verkefnum Evrópuskrifstofunnar í 53 þjóðlöndum.
Kjörið fór fram á 65 þingi Evróupuskrifstofu WHO sem nú stendur yfir í Vilníus í Litháen. Fulltrúar í framkvæmdastjórninni eru kjörnir til þriggja ára í senn. Að þessu sinni var kosið um um fjóra nýja fulltrúa og fengu fulltrúa, auk Íslands, löndin Ítalía, Georgía og Tajikistan. Fyrsti fundur framkvæmdastjórnarinnar eftir kjör nýrra fulltrúa verður haldinn í Vilníus á morgun.
Höfuðstöðvar Evrópuskrifstofu WHO eru í Kaupmannahöfn. Aðildarlöndin eru 53 ríki, allt frá Atlantshafi að Kyrrahafi. Í 29 þessra landa er Evrópuskrifstofan með starfsstöðvar og eru starfsmenn samtals um 500 talsins. Forstjóri er Dr. Zsuzsanna Jakab.
Af helstu verkefnum og áherslumálum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar má nefna bólusetningar, sýkingavarnir, heildræna og samþætta nálgun í heilbrigðismálum (e. whole of government and whole of societies approach), langvinna sjúkdóma, geðheilsu, offitu, hreyfingarleysi heilbrigðisþjónustu við flóttafólk o.fl.
- Nánari upplýsingar um Evrópuskrifstofu WHO eru á vefsvæði stofnunarinnar: http://www.euro.who.int/en/home
- Fylgjast má með beinni útsendingu frá 65. þingi WHO á þessari slóð: http://www.euro.who.int/en/home