Drög að breytingu á lögum um mannréttindasáttmála Evrópu til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að lagafrumvarpi um breytingu á lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, 62/1994, með síðari breytingum. Er þar lagt til að 15. viðauki við mannréttindasáttmála Evrópu verði lögfestur. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um frumvarpsdrögin til og með 28. september næstkomandi. Skulu þær berast á netfangið [email protected].
Með lagabreytingunni er lagt til að 15. viðauki við mannréttindasáttmála Evrópu verði lögfestur. Viðaukinn var samþykktur af ráðherraráði Evrópuráðsins á fundi þess í Strassborg þann 16. maí 2013 og undirritaður af Íslands hálfu þann 9. júlí 2013. Meginefni samningsins er að ítreka að ábyrgð á að vernda og tryggja mannréttindi innan aðildarríkjanna liggi hjá aðildarríkjunum sjálfum og að besta leiðin til þess að vinna á hinum mikla málafjölda hjá dómstólnum sé að vernd mannréttinda sé þannig heima fyrir að ekki þurfi að leita til dómstólsins.
Í heild telur viðaukinn níu greinar, fimm er lúta að efnisbreytingum á regluumhverfi, en fjórar síðustu varða formþætti varðandi gildistöku og undirritun viðaukans. Efnislegar breytingar með gildistöku viðaukans eru:
- Meginreglurnar um svigrúm ríkja til mats og nálægðarreglan, sem mótast hafa í framkvæmd dómstólsins, eru felldar inn í aðfararorð samningsins.
- Felldur er út gildandi fyrirvari um að óheimilt sé að vísa frá máli á þeirri forsendu að dómstóll hafi ekki fjallað um málið á tilhlýðilegan hátt í málum sem ekki hafa valdið kæranda umtalsverðu óhagræði nema virðing fyrir mannréttindum krefjist þess að málið sé tekið fyrir.
- Umsækjendur um dómaraembætti við mannréttindadómstólinn skulu nú vera yngri en 65 ára daginn sem þing Evrópuráðsins óskar eftir lista með umsækjendum. Þá hefur reglan um að kjörtímabil dómara renni út þegar þeir ná 70 ára aldri verið felld úr sáttmálanum.
- Felld er brott heimild annars aðila málsins til þess að synja því að mál fari fyrir yfirdeild.
- Kærufrestur er styttur úr sex mánuðum í fjóra.