Íslenskri náttúru fagnað um land allt
Íslensk náttúra skartaði sínu fegursta víða um land í gær þegar Degi íslenskrar náttúru var fagnað í mildu haustveðri. Meðal annars heimsótti Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra börn í Laugarnesskóla og Melaskóla og veitti viðtöku fyrsta eintaki fræðslubókar um jökla sem ætluð er börnum.
Fjöldi viðburða voru skipulagðir víða um land í tilefni dagsins, en að þessu sinni var sjónum beint að þeim stöðum og náttúrufyrirbærum í íslenskri náttúru sem hver og einn hefur dálæti á. Algengt var að fólk nýtti daginn til gönguferða og fuglaskoðana og í Snæfellsstofu á Skriðuklaustri var boðið upp á ratleik. Þá var dagurinn nýttur til útgáfu af ólíkum toga með íslenska náttúru í brennidepli. Auk fyrrnefndrar bókar um jökla og loftslagsmál má nefna endurútgáfu Flóru Íslands - vatnslitamyndar Eggerts Péturssonar af 63 tegundum íslenskra háplantna sem hefur verið ófáanleg um tíma og nýtt náttúruverndarlag Reykjavíkurdætra og Ómars Ragnarssonar.
Ýmis konar fróðleikur var í boði um íslenska náttúru. Í Mosfellsbæ var efnt til málþings um heilsusamlegan og grænan lífsstíl þar sem m.a. var fjallað um áhrif náttúrunnar á lýðheilsu. Hægt var að sækja ýmsa fyrirlestra um íslenska náttúru, m.a. um Holuhraun og sumarrannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þá var opið og ókeypis aðgangur að Sagnagarði, fræðslu- og kynningarsetri Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti.
Dagurinn var einnig áberandi á samfélagsmiðlum – Náttúrustofa Austurlands efndi til ljós- og hreyfimyndasamkeppni og fjöldi fólks tók þátt í áskoranaleiks þar sem hvatt var til að birta ljósmyndir, ljóð, frásagnir, listaverk, tónlistarmyndbönd eða annað þar sem uppáhaldsfyrirbæri þeirra í íslenskri náttúru kæmu við sögu, og var stuðst við myllumerkin #DÍN og #stadurinnminn í því sambandi.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hóf daginn í útvarpsviðtali á Morgunvaktinni á Rás1 en að því loknu hélt hún í Laugarnesskóla þar sem hún hóf sína skólagöngu og tók þátt í morgunsöng barnanna í skólanum. Sungu börnin umhverfislag skólans auk hins vinsæla söngs „Ég er komin heim“ svo undir tók í skólahúsinu. Að söngnum loknum fékk ráðherra kynningu á þeim verkefnum sem börn í 5. bekk skólans hafa unnið í náttúrufræði en þau hafa m.a. gert náttúrufræðirannsóknir í Katlagili í Mosfellsdal og kannað lífríkið í fjörunni í Gróttu.
Ráðherra heimsótti einnig börn í 7. bekk Melaskóla og tók þar við fyrsta eintaki bókarinnar „Af hverju eru jöklar og ís á jörðinni: Spurningar af Vísindavefnum um jökla og loftslagsmál,“ eftir jöklafræðinginn Helga Björnsson. Bókin er sérstaklega ætluð börnum og fróðleiksfúsum almenningi og fjallar um þetta brýna úrlausnarefni mannkyns, loftslagsbreytingar og samspil þeirra við jökla.
Síðar um daginn stóð umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir hátíðarsamkomu þar sem hún veitti sjónvarpsþáttaröðinni „Lífríkið í sjónum við Ísland“ eftir Erlend Bogason og Pétur Halldórsson, fjölmiðlaverðlaun ráðuneytisins. Þá veitti hún hjónunum Birni Halldórssyni og Elisabeth Hauge á Valþjófsstöðum I í Núpasveit sem og Völundi Jóhannessyni á Egilsstöðum Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti, sjá nánar. Auk hátíðarræðu ráðherra flutti Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands, hugvekju um náttúruna og náttúruhamfarir og félagar úr kvennakórnum Vox Feminae fluttu tónlist undir stjórn Margrétar Pálmadóttur.