Lagttil að heimiluð verði skipt búseta barns með ákveðnum skilyrðum
Innanríkisráðherra hefur skilað Alþingi skýrslu um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Er það í samræmi við ályktun Alþingis frá 12. maí 2014 þar sem ráðherra var falið í samstarfi við félags- og húsnæðismálaráðherra að skipa fimm manna starfshóp sem kanni með hvaða leiðum megi jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna. Innanríkisráðuneytið hefur skýrsluna til meðferðar og Ólöf Nordal innanríkisráðherra lýsti yfir ánægju sinni með skýrsluna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Í þingsályktuninni kemur fram að markmið starfshópsins hafi verið að útfæra leiðir til að eyða þeim aðstöðumun sem er á heimilum þegar foreldrar sem búa ekki saman ákveða að ala börn sín upp á tveimur heimilum. Í því skyni taki hópurinn meðal annars afstöðu til þess hvort taka skuli upp kerfi sem heimilar börnum að hafa tvöfalt lögheimili eða hvort annað fyrirkomulag jafnrar búsetu henti betur.
Helstu niðurstöður starfshópsins eru eftirfarandi:
Gerðar verði breytingar á barnalögum til að jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna og ákveða að ala þau upp saman á tveimur heimilum og að þar komi inn nýtt ákvæði sem heimili skipta búsetu barns á grundvelli staðfests samkomulags foreldra, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ekki er lagt til að unnt verði að úrskurða eða dæma skipta búsetu. Skipt búseta barns mun fela í sér ýmis réttaráhrif þar á meðal varðandi ákvarðanatöku um málefni barns svo og framfærslu þess.
Gerðar verði breytingar á ýmsum lögum varðandi opinberan stuðning, lögum um lögheimili auk barnalaga ásamt því að lagt er til að sveitarfélög landsins lagi þjónustu sína að breyttum þjóðfélagsháttum og taki þannig virkt tillit til jafnrar ábyrgðar og skyldna foreldra á uppeldi og umönnun barna í málum sem þau varða og falla undir valdsvið sveitarfélaga.
Starfshópurinn leggur einnig áherslu á mikilvægi þess að úr tölvukerfi Þjóðskrár Íslands verði hægt að fá upplýsingar um að barn sé í skiptri búsetu sem þýðir að í þjóðskránni komi fram heimilisfang beggja foreldra barnsins.
Skýrslan er nú til meðferðar í innanríkisráðuneytinu og verður unnt að senda ráðuneytinu sjónarmið og ábendingar um efni hennar til og með 15. október. Skulu þær berast á netfangið [email protected].
Skýrslunni skilað í innanríkisráðuneytið. Á myndinni eru frá hægri: Þórhildur Líndal, formaður nefndarinnar sem tilnefnd var af innanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður ráðherra, Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, Kristín Haraldsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, Lilja Borg Viðarsdóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu, og Pálmi Þór Másson, lögfræðingur og fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í nefndinni.