Hoppa yfir valmynd
1. október 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Losun gróðurhúsalofttegunda minnkar í flestum geirum

Ný skýrsla um framkvæmd aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum er komin út.

Losun gróðurhúsalofttegunda hefur dregist saman frá 2008 eins og gert var ráð fyrir í aðgerðaáætlun stjórnvalda 2010 og jafnvel aðeins meira en áætlað var. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um framkvæmd aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum, hinni þriðju í röðinni. Minni losun skýrist að hluta af aðgerðum stjórnvalda, að mati samstarfshóps um framkvæmd áætlunarinnar, en að hluta af almennri efnahagsþróun. Í heild nemur samdráttur í nettólosun (þ.e. þegar kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu er dregin frá) um 14% milli áranna 2008 og 2012.

Losun frá stóriðju dróst saman um 4% frá 2008 til 2013; en þar sem stóriðja er innan samevrópsks viðskiptakerfis með losunarheimildir hefur losun frá henni ekki jafn mikil áhrif varðandi skuldbindingar íslenskra stjórnvalda og frá öðrum uppsprettum. Losun utan stóriðju (með kolefnisbindingu) dróst saman um 19% frá 2008 til 2012 og var um 7% lægri en losunaráætlun fyrir árið 2012.

Losun frá samgöngum hefur dregist saman um 13% 2008-2013, sem er örlítið umfram væntingar. Losun frá sjávarútvegi er einnig undir losunaráætlun fyrir árið 2013 og hefur dregist saman um 14% frá 2008. Losun frá orkuframleiðslu (jarðvarma og olíubrennslu til hitunar) minnkaði um 8% 2008-2013 og er undir áætlun. Langmest hefur þó dregið úr losun í „öðrum greinum“, þar sem munar mest um byggingariðnað, eða um 56% á milli 2008 og 2012.

Á móti þessu kemur að losun er yfir áætlun í nokkrum geirum. Losun frá landbúnaði minnkaði um 4% frá 2008 til 2012, en er þó um 9% yfir því sem var áætlað fyrir 2012. Losun við meðferð úrgangs var undir áætlun 2012, en yfir áætlun 2013, en þar þarf þó að taka tölum með fyrirvara vegna breyttra reikningsaðferða árið 2013. Þá er kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu töluvert minni en reiknað var með. Kolefnisbinding hefur aukist um 50% frá 2008 til 2013, en var þó 19% lægri 2013 en áætlað var, fyrst og fremst þar sem fjármagn til aðgerða dróst saman á tímabilinu.

Ýmis jákvæð teikn eru á lofti um árangur varðandi loftslagsvæna tækni og lífsstíl. Greinileg aukning hefur orðið á fjölda þeirra sem nota reiðhjól til samgangna og sömuleiðis má merkja aukningu í notkun almenningssamgangna. Fleiri kaupa sparneytna og loftslagsvænni bíla en áður, þótt fjölgun rafbíla gangi ekki jafn hratt og t.d. í Noregi. Góður og merkilegur árangur hefur náðst við rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og dregið hefur úr losun í fiskveiðum. Þetta gefur vísbendingar um að aðgerðir og vilji til framtaks í loftslagsvænum lausnum geti skilað árangri.

Skýrslan er gefin út af fulltrúum í samstarfshópi, þar sem sitja fulltrúar fimm ráðuneyta og frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í skýrslum samstarfshópsins er leitast við að birta yfirlit yfir þróun losunar og kolefnisbindingar og bera hana saman við markmið og líkön í aðgerðaáætluninni. Einnig er birt yfirlit yfir gang mála við að framkvæma aðgerðaáætlun frá 2010, en þar er einkum horft til tíu svokallaðra lykilaðgerða, sem flestar teljast hafa komið til framkvæmda að miklu eða öllu leyti.

Aðgerðir í loftslagsmálum - Skýrsla samstarfshóps til umhverfis- og auðlindaráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta