Skráningu á Umhverfisþing lýkur 6. október
Skráning á IX. Umhverfisþing stendur nú sem hæst. Þingið verður haldið föstudaginn 9. október á Grand Hótel í Reykjavík. Umhverfisþing fjallar að þessu sinni um samspil náttúru og ferðamennsku.
Fyrir hádegi verða flutt inngangserindi um þema þingsins. Meðal ræðumanna er heiðursgestur þingsins, Susan Davies forstjóri Scottish Natural Heritage, en stofnunin hefur umsjón með náttúruvernd og sjálfbærri nýtingu náttúru í Skotlandi. Davies mun ávarpa þingið og m.a. fjalla um reynslu stofnunarinnar af því að samþætta náttúruvernd við útivist og ferðamennsku.
Eftir hádegi verður þinginu skipt í tvær málstofur. Í annarri málstofunni er spurt hvort ferðamennska í náttúru Íslands sé ógn eða tækifæri í náttúruvernd. Í hinni er fjallað um friðlýst svæði, vernd þeirra, skipulag, rekstur og fjármögnun. Dagskrá þingsins er að finna hér.
Nauðsynlegt er að þátttakendur skrái sig á vefsíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á slóðinni www.uar.is/skraning eigi síðar en 6. október nk. Þingið er öllum opið svo lengi sem húsrúm leyfir.
Er það von umhverfis- og auðlindaráðherra að þingið verði vettvangur upplýstrar umræðu og skoðanaskipta um samspil náttúru og ferðamennsku, sem nýst getur stjórnvöldum við stefnumótun og efli umræðu um umhverfismál hér á landi.