Átak til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að heilbrigðisráðherra gangi frá samkomulagi um samstarfsverkefni heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead um átak til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi. Greint var frá málinu á fréttamannafundi sem haldinn var á Landspítalanum í Fossvogi í morgun.
Einstaklingum sem eru smitaðir af lifrarbólgu C og njóta sjúkratrygginga á Íslandi mun bjóðast meðferð með nýjum lyfjum sem geta læknað sjúkdóminn í allt að 95 til 100% tilvika. Með þessu meðferðarátaki verður reynt að útrýma sjúkdómnum hér á landi og stemma stigu við frekari útbreiðslu hans. Um er að ræða meiri háttar forvarnar- og lýðheilsuverkefni þar sem öllum þeim sem greinst hafa með veiruna verður boðin fræðsla, meðferð og eftirfylgni og þar með lágmörkuð hætta á nýjum tilvikum sjúkdómsins með smiti milli manna. Á Íslandi eru kjöraðstæður til að ráðast í slíkt verkefni; samfélagið er lítið, þekking og reynsla heilbrigðisstarfsmanna er fyrir hendi svo og nauðsynlegir innviðir heilbrigðiskerfis. Íslensk heilbrigðisyfirvöld vinna að þessu átaki í samstarfi við lyfjafyrirtækið Gilead sem m.a. leggur til lyfið Harvoni í faraldsfræðilegu rannsóknarskyni. Samhliða meðferðarátakinu fara fram rannsóknir á árangri átaksins til lengri og skemmri tíma, m.a. sjúkdómsbyrði og áhrifum átaksins á langtímakostnað við heilbrigðisþjónustu.
Meðferðarátak næstu þrjú árin
Lifrarbólga C er alvarlegur og í mörgum tilvikum lífshættulegur sjúkdómur. Talið er að á heimsvísu séu um 180 milljónir manna með sjúkdóminn. Sé sýkingin ekki meðhöndluð getur hún leitt til vaxandi örmyndunar í lifur, skorpulifrar, lifrarkrabbameins og lifrarbilunar. Á Íslandi er áætlað að um 800 til 1000 manns séu smitaðir af lifrarbólgu C en árlega greinast á bilinu 40 – 70 einstaklingar.
Unnt er að lækna lifrarbólgu C hjá flestum sjúklingum með viðeigandi lyfjagjöf. Hópur lækna á Landspítala hefur haft forystu um innleiðingu átaksverkefnis sem hefur það markmið að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi. Hópurinn hefur í umboði heilbrigðisráðherra unnið að undirbúningi samnings við fyrirtækið Gilead Sciences. Samhliða þessari vinnu hefur breiður hópur fagfólks Landspítala ásamt ráðuneytinu, sóttvarnalækni, SÁÁ og fleiri aðilum unnið að fjölþættum undirbúningi átaksins.
Lyfin sem notuð verða í þessu verkefni hafa þegar fengið markaðsleyfi og eru notuð í mörgum löndum, m.a. á Norðurlöndum og í Bretlandi í völdum tilvikum til meðferðar sjúklinga með lifrarbólgu. Lyfin eru í töfluformi og gefin daglega meðan á meðferð stendur, alla jafna í átta til tólf vikur, þótt sumir sjúklingar geti þurft meðferð í allt að 24 vikur.
Stefnt er að því að hefja átakið fyrir lok þessa árs. Sjúklingum verður forgangsraðað til meðferðar af viðkomandi sérfræðilæknum Landspítala. Átakið mun vara í 3 ár og hefur ríkisstjórnin samþykkt að leggja til þess 150 milljónir króna á ári sem varið verður til blóðrannsókna og annarrar þjónustu sem tengist meðferðinni.
Verkefnið fellur að 5. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 og mun ráðuneytið fela Sóttvarnalækni að hafa yfirumsjón með verkefninu. Landspítali mun leggja til starfsmenn, aðstöðu og nauðsynlegar greiningarrannsóknir. Sótt hefur verið um viðeigandi leyfi til vísindarannsókna.
„Hér njótum við góðs af því að vera fámenn eyþjóð, því það er ein af mikilvægum forsendum þess að lýðheilsuátak eins og þetta sé raunhæft og framkvæmanlegt, auk þess að hafa hér heilbrigðiskerfi með trausta innviði og vel menntað heilbrigðisstarfsfólk. Þótt lifrarbólgu verði ekki útrýmt í orðsins fyllstu merkingu er þetta átak sem mun hafa afgerandi áhrif á lýðheilsu Íslendinga til frambúðar“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
„Að þessu mikilvæga verkefni hefur unnið hópur fagfólks á Landspítala. Samhliða meðferð sjúklinga dagsins í dag sem nú fá úrbót sinna mála, fer af stað mikilvægt rannsóknarverkefni sem gagnast mun til lengri framtíðar. Ég fagna þessu stóra lýðheilsuátaki þar sem vönduð greining, meðferð og eftirlit verður eins og best verður á kosið“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
„Lifrarbólga C er alvarlegur sjúkdómur sem hefur verið landlægur hér um árabil. Með átakinu vonumst við til að rjúfa þennan vítahring smits og bægja þannig sjúkdómnum frá til framtíðar“ segir Haraldur Briem, settur sóttvarnalæknir.
Um Lifrarbólgu C:
Lifrarbólga C (HCV) barst hingað til lands um miðjan 9. áratug síðustu aldar að því er talið er. Sjúkdómurinn er vaxandi vandamál á Íslandi eins og víða um heim. Smitið er oftast einkennalaust í upphafi en um 80% þeirra sem smitast fá viðvarandi lifrarbólgu sem skerðir lífsgæði og getur leitt til skorpulifrar. Skorpulifur fylgir verulega aukin áhætta á lifrarfrumukrabbameini en því fylgir há dánartíðni. Lifrarbólga C er ein algengasta orsök skorpulifrar á Vesturlöndum og algeng ástæða lifrarígræðslu.