Hoppa yfir valmynd
9. október 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisþjónusta yfir landamæri

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Heilbrigðisráðherra leggur á næstu dögum fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um sjúkratryggingar og á lyfjalögum. Lagabreytingarnar fjalla um ráðstafanir til að gera sjúklingum kleift að sækja heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki Evrópusambandsins að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Með frumvarpinu er áhersla lögð á að jafnræði ríki í meðhöndlun sjúklinga og að þjónusta sé veitt úr frá þörf þeirra fyrir heilbrigðisþjónustu fremur en á grundvelli þess í hvaða ríki þeir eru tryggðir.

Endurgreiðsla kostnaðar

Megintilgangur frumvarpsins er að gera sjúkratryggðum einstaklingum hér á landi kleift að sækja heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins og heimila endurgreiðslu kostnaðar að því marki sem sjúkratryggingar greiða fyrir sambærilega þjónustu hér á landi. Með fyrirhuguðum lagabreytingum verða innleidd ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins 2011/24/EB sem fjallar um rétt til heilbrigðisþjónustu yfir landamæri og tilkskipun 2012/52/ESB um viðurkenningu á lyfseðlum sem gefnir eru út í öðrum aðildarríkjum.

Hvað varðar endurgreiðslu kostnaðar af heilbrigðisþjónustu yfir landamæri tekur tilskipunin ekki einungis til aðstæðna þar sem sjúkratryggður fær heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki en tryggingaraðildarríkinu heldur einnig til lyfseðla og skömmtunar og afgreiðslu lyfja og lækningatækja. Sjúkratryggður einstaklingur sem velur að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annars EES-ríkis fær því endurgreiddan kostnað sem nemur þeirri fjárhæð sem kostar að veita þjónustuna hér á landi. Annan kostnað greiðir einstaklingurinn sjálfur. Meginregla tilskipunarinnar er sú að ekki er gerð krafa um að sótt sé um fyrirfram samþykki til þar til bærra yfirvalda áður en þjónusta er sótt til annars EES-ríkis, þó að tilskipunin veiti ákveðnar heimildir til þess að ríki geri slíka kröfu. Í frumvarpinu er ekki gerð krafa um fyrirfram samþykki og er sú leið farin að fyrirmynd Noregs og vegna afstöðu Sjúkratrygginga Íslands um að slík krafa verið ekki gerð hér á landi vegna aukinnar umsýslu og kostnaðar sem því myndi fylgja.

Lyfseðlar og lyfjaávísanir

Með fyrirhuguðum ráðstöfunum til að auðvelda viðurkenningu á lyfseðlum sem gefnir eru út í öðrum aðildarríkjum verður lyfseðill ekki lengur einungis gild lyfjaávísun læknis eða tannlæknis  sem hafa gild lækningaleyfi hér á landi heldur munu lyfseðlar gefnir út af læknum eða tannlæknum með gild lækningaleyfi í aðildarríkjum EES vera gildar lyfjaávísanir hér á landi, þó í samræmi við þær reglur sem gilda um ávísanir og afhendingu lyfja*.

* Ath! fyrir mistök var í umræddu frumvarpi gert ráð fyrir að auk lækna og tannlækna gætu lyfseðlar dýralæknar með gild lækningaleyfi í aðildarríkjum EES gilt hér á landi. Þessu hefur nú verið breytt og fréttinni hér að ofan sömuleiðis til samræmis við það (dags. 13.10.2015).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta