Líflegar umræður á Umhverfisþingi
Góðar umræður sköpuðust um samspil náttúru og ferðamennsku á IX. Umhverfisþingi sem haldið var á Grand Hótel Reykjavík sl. föstudag.
Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði þingið við setningu þess þar sem hún fjallaði í víðu samhengi um þau verkefni sem efst eru á baugi í ráðuneytinu, s.s. styrkingu stofnanakerfisins, landskipulagsstefnu, endurskoðun náttúruverndarlaga, loftslagsmál og stefnumótun hvað varðar skipulag hafs og stranda. Þá ræddi hún mikilvægi þess að skipuleggja til lengri tíma þær aðgerðir sem ráðast þarf í til að tryggja vernd náttúrunnar meðal annars gagnvart sívaxandi nýtingu ferðaþjónustunnar. Hefur ráðherra mælt fyrir frumvarpi á Alþingi um stefnumarkandi áætlun að uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Ávarp ráðherra má lesa í heild sinni hér.
Heiðursgestur þingsins var Susan Davies, forstjóri Scottish Natural Heritage, en stofnunin hefur umsjón með náttúruvernd og sjálfbærri nýtingu náttúru í Skotlandi. Davies fjallaði meðal annars um reynslu Skota af samþættingu náttúruverndar og ferðamennsku en Skotar hafa þótt sýna framsýni í því hvernig þeir skipuleggja ferðaþjónustu sína með tilliti til náttúruverndar.
Nemendur úr grunnskólunum á Hellu, Hvolsvelli og Þjórsárskóla kynntu vistheimtarverkefni sem þeir hafa unnið að undanfarin ár í samvinnu við Landvernd og sýndu m.a. myndir og myndband frá því starfi.
Inngangserindi héldu þeir Dr. Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands sem fjallaði um hvers virði náttúran er og Dr. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs sem ræddi hvort villt náttúra og ferðamenn ættu samleið.
Áfram var svo fjallað um samspil náttúruverndar og ferðamennsku í tveimur málstofum eftir hádegi þar sem fjölmörg sjónarmið komu fram í stuttum erindum og umræðum þinggesta.
Upptökur, glærur og annað efni sem tengist þinginu má nálgast hér á dagskrárvef þingsins.