Hoppa yfir valmynd
14. október 2015 Dómsmálaráðuneytið

Útlendingastofnun semur við Reykjavíkurborg um þjónustu við hælisleitendur

Forstjóri Útlendingastofnunar og borgarstjóri skrifuðu í dag undir samning um þjónustu Reykjavíkurborgar við hælisleitendur sem innanríkisráðherra staðfesti. Samningurinn er liður í því hlutverki stjórnvalda að tryggja hælisleitendum þjónustu meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og tryggja fullnægjandi búsetuúrræði.

Ólöf Nordal, Dagur B. Eggertsson og Kristín Völundardóttir skrifuðu undir samninginn.
Ólöf Nordal, Dagur B. Eggertsson og Kristín Völundardóttir skrifuðu undir samninginn.

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifuðu undir samninginn ásamt Ólöfu Nordal innanríkisráðherra en hann gildir út næsta ár. Þá fylgir samningnum viðauki þar sem nánar er kveðið á um hvers konar þjónustu skal veita.

Reykjavíkurborg er með samningi þessum að skuldbinda sig til að þjónusta fimm fjölskyldur meðan þær bíða úrlausnar mála sinna hér á landi, sem er viðbót frá fyrri samningi sem eingöngu náði yfir einstaklinga sem sótt hafa um hæli á Íslandi og bíða úrlausnar. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar annast þjónustuna sem felst í að tryggja hælisleitendum húsnæði, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Einnig mun borgin sjá um að hælisleitendur fái túlkaþjónustu eftir því sem við á og leitast við að gefa þeim tækifæri til að kynnast íbúum og afla sér þekkingar á íslensku samfélagi. Þá skulu samningsaðilar hafa með sér samráðsvettvang þar sem fjallað skal reglulega um þjónustuna og framgang hennar þar sem rýnt verður sérstaklega í þjónustu við börn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta