Áhersla á loftslagsmál og svæðisbundna samvinnu
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, tók í dag þátt í fundi utanríkisráðherra Barentsráðsins, sem haldinn var í Oulu í Finnlandi, en fundurinn markaði lok formennsku Finnlands í ráðinu.
Í ræðu sinni á fundinum lagði Gunnar Bragi áherslu á mikilvægi svæðisbundins samstarfs, meðal annars í tengslum við loftslagsbreytingar og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, og nauðsyn þess að íbúar svæðisins, ekki síst frumbyggjar, séu hafðir með í ráðum í ákvarðanatöku. Þá fjallaði ráðherra um mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa og bættrar orkunýtingar, og fór nokkrum orðum um áherslur Íslands á norðurslóðum, þ.m.t. aukna samvinnu við einkageirann, mikilvægi jafnréttismála og viðbragðsgetu á norðurslóðum.
Rússland tekur við formennsku af Finnlandi í Barentsráðinu næstu tvö árin, en aðild að ráðinu eiga, auk Íslands, Danmörk, Finnland, Noregur, Rússland, Svíþjóð og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Áttu ráðherrarnir ennfremur óformlegan kvöldverðarfund í gær.