Hoppa yfir valmynd
15. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2015

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 15. október 2015 var tekið fyrir mál nr. 13/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hefur með kæru, dags. 9. júlí 2015, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 10. júní 2015, um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

 

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 6. júní 2015 með umsókn, dags. 11. mars 2015. Í umsókn kæranda kom fram að hún hafi starfað á innlendum vinnumarkaði frá maí 2013 til september 2014 og frá desember 2014 til febrúar 2015. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 5. maí 2015, var kæranda tilkynnt að hún ætti rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að því gefnu að hún yrði í a.m.k. 25% starfi/sjúkradagpeningum fram að fæðingardegi barns hennar og að barnið myndi ekki fæðast fyrir 17. júní 2015.

Barn kæranda fæddist þann þann Y. júní 2015. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. júní 2015, var umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði synjað á þeirri forsendu að hún hafi ekki verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið Y. til 16. desember 2014 og því ekki náð sex mánuðum á vinnumarkaði fyrir fæðingu barnsins.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 9. júlí 2015. Með bréfi, dags. 13. júlí 2015, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 28. júlí 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. ágúst 2015, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 11. ágúst 2015 og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. ágúst 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

 

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið í fullu starfi frá maí 2013 til september 2014 en þá hafi hún hafið nám við Háskóla Íslands. Í október 2014 hafi hún komist að því að hún væri ófrísk og þá lesið sig til um að hún þyrfti að vera í vinnu í sex mánuði fram að fæðingu barnsins til þess að halda réttinum til fæðingarorlofs. Í lok nóvember 2014 hafi hún ráðið sig í vinnu frá 1. desember 2014 en hún hafi mátt ráða því hvenær í desember hún myndi hefja störf. Kærandi tekur fram að hún hafi haft samband við Fæðingarorlofssjóð í byrjun desember 2014 til að kanna hvort það skipti máli hvenær í mánuðinum hún myndi hefja störf. Kærandi kveðst hafa fengið þær upplýsingar að einungis starfshlutfallið í hverjum mánuði skipti máli og því væri hún örugg svo lengi sem hún næði 25% starfshlutfalli í desember mánuði. Þetta hafi hún síðan fengið staðfest í tölvupósti 8. desember 2014.

Kærandi tekur fram að hún hafi ákveðið að bíða með að hefja störf þar til eftir jólaprófin eða til 17. desember 2014. Henni hafi staðið til boða að hefja störf fyrr og hún hefði tekið vaktir strax fyrstu vikuna í desember ef hún hefði fengið réttar upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði. Hún hafi eingöngu byrjað að vinna til þess að halda fæðingarorlofsréttinum. Kærandi bendir á að hún hafi verið í rúmlega 25% starfshlutfalli í desember 2014 og janúar og febrúar 2015. Hún hafi þurft að hætta að vinna vegna grindargliðnunar og verkja í lífbeini og því fengið sjúkradagpeninga frá stéttarfélagi í mars, apríl og maí 2015. Hún hafi því verið örugg um að uppfylla kröfuna um sex mánuði á vinnumarkaði fyrir fæðingu barnsins.

Kærandi greinir frá því að þann 5. maí 2015 hafi henni verið tilkynnt að hún fengi ekki fæðingarorlofsgreiðslur nema barn hennar myndi fæðast á eða eftir 17. júní 2015 þar sem sá dagur marki lokin á samfelldum sex mánuðum á vinnumarkaði. Hún hafi þá fyrst, á þeim sjö mánuðum sem hún hafi verið í samskiptum við Fæðingarorlofssjóð, fengið þær upplýsingar að viðvera á vinnumarkaði væri talin upp á dag. Ef hún hefði fengið réttar upplýsingar hefði verið einfalt að verða við þessu. Kærandi telur að þetta komi ekki nægilega skýrt fram á umsóknareyðublaði Fæðingarorlofssjóðs og að starfsmenn sjóðsins virðist ekki hafa þetta á hreinu.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

 

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) þar sem kveðið sé á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 2. mgr. 7. gr. ffl. sé að finna orðskýringu á starfsmanni en samkvæmt ákvæðinu telst starfsmaður skv. lögunum vera hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Í 1. mgr. 13. gr. a ffl. komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf.

Í 2. mgr. sé síðan talið upp í eftirfarandi fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði:

a.       orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b.      sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c.       sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almanna­tryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d.      sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e.       sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Barn kæranda hafi fæðst þann Y. júní 2015. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. ffl. væri frá Y. desember 2014 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi þurft, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði á tímabilinu, sbr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra sé starfshlutfall kæranda í desember 2014 skráð 20%. Á staðfestingu vinnuveitanda kæranda, dags. 17. febrúar 2015, komi fram að kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu frá 17. desember 2014 og í tölvupósti kæranda, dags. 22. janúar 2015, komi fram að eftir samskipti kæranda við starfsmann Fæðingarorlofssjóðs þann 8. desember 2014 hafi hún fengið vinnu hjá X (U ehf.). Í tölvupósti kæranda, dags. 5. maí 2015, komi fram að hún hafi verið í prófum til 16. desember 2014 og í tölvupósti síðar um kvöldið komi fram að hún hafi hafið störf þann 17. desember 2014.

Samkvæmt framangreindu uppfylli kærandi ekki meginreglu 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 13. gr. a ffl., um að hafa verið samfellt í a.m.k. 25% starfshlutfalli á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns tímabilið 8. til 16. desember 2014.

Ekki verði séð af fyrirliggjandi gögnum að stafliðir 2. mgr. 13. gr. a. ffl. geti átt við í tilviki kæranda. Kærandi hafi verið í fullu námi við Háskóla Íslands á haustönn 2014, sbr. meðal annars námsferilsyfirlit, dags. 9. apríl og 12. júní 2015. Hún hafi lokið prófum þann 16. desember 2014. Tölvupóstar kæranda frá 8. desember 2014 og 5. maí 2015 staðfesti að kærandi hafi ekki ráðið sig til vinnu hjá U ehf. fyrr en eftir samskipti við starfsmann Fæðingarorlofssjóðs þann 8. desember 2014 og samkvæmt staðfestingu vinnuveitanda kæranda, dags. 17. febrúar 2015, hafi hún hafið störf hjá fyrirtækinu þann 17. desember 2014.

Samkvæmt framangreindu verði ekki séð að kærandi hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns þann Y. júní 2015 tímabilið 8. til 16. desember 2014, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Í kæru kæranda sé því haldið fram að hún hafi fengið rangar leiðbeiningar frá Fæðingarorlofssjóði í símtali og tölvupósti í nóvember og desember 2014. Fæðingarorlofssjóður hafnar þessum fullyrðingum kæranda alfarið sem röngum. Samskiptasaga kæranda við Fæðingarorlofssjóð hefjist þann 17. mars 2015 þegar umsókn hennar um greiðslur hafi borist sjóðnum. Ekkert liggi fyrir um að kærandi hafi haft samband símleiðis í nóvember og desember 2014 og verið veittar rangar leiðbeiningar vegna umsóknar hennar um greiðslur. Þvert á móti bendi tölvupóstsamskipti við kæranda í desember 2014 til þess að engin samtöl hafi farið fram í síma fyrir þann tíma. Rétt sé þó að taka fram að símtöl sjóðsins séu ekki hljóðrituð.

Fyrir liggi að talsverð samskipti hafi verið við kæranda í tölvupósti frá 9. ágúst 2014 til 22. júní 2015 auk bréfa sem hafi verið send á kæranda, dags. 17. mars, 22. apríl, 5. maí, 29. maí og 10. júní 2015. Í þeim samskiptum verði ekki séð að kæranda hafi verið veittar rangar leiðbeiningar heldur þvert á móti. Í tölvupósti starfsmanns Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 8. desember 2014, komi þannig skýrt fram að ef kærandi ætli að sækja um fæðingarorlof en ekki fæðingarstyrk námsmanna þurfi hún að vera með vinnu alla sex mánuðina fyrir fæðingardag barns. Síðar í sama pósti segi einnig að það séu alltaf þessir sex mánuðir fyrir fæðingardag barns sem ráði því hvernig hún komist inn í sjóðinn. Rétt þykir að vekja athygli á að á þessum tímapunkti liggi skýrt fyrir að kærandi sé ekki með vinnu þótt hún reyni svo að halda öðru fram síðar. Í þessu samhengi þykir og óhjákvæmilegt annað en vekja athygli á samskiptum kæranda við Fæðingarorlofssjóð meðal annars þann 22. júní 2015 þegar kærandi haldi því enn og aftur fram að hún hafi verið að fá rangar leiðbeiningar frá starfsfólki Fæðingarorlofssjóðs. Ákveðið hafi verið að viðkomandi starfsmaður myndi hringja í kæranda eftir tölvupóst sem hún hafi sent enda hafði kvörtunarefni kæranda ekki borið á góma í símtalinu. Í símtalinu sagðist kærandi ætla að senda nýjan tölvupóst þar sem það yrði leiðrétt sem hún hafði sent í fyrri tölvupósti. Sá tölvupóstur hafi hins vegar ekki borist sjóðnum enn.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli ekki skilyrði þess að eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk námsmanna, sbr. greiðsluáætlun til hennar, dags. 25. júní 2015. 

 

IV. Niðurstaða

 

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 10. júní 2015, um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeirri forsendu að hún hafi ekki verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. a ffl., sbr. 2. mgr. 7. gr., felur þátttaka á innlendum vinnumarkaði meðal annars í sér að starfa sem starfsmaður, þ.e. að vinna launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þá telst enn fremur til þátttöku á innlendum vinnumarkaði meðal annars orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldrið látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, sbr. 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Barn kæranda fæddist þann Y. júní 2015. Sex mánaða ávinnslutímabil skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. er því frá Y. desember 2014 fram að fæðingardegi barnsins. Til þess að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði á því tímabili. Ágreiningur málsins lýtur að tímabilinu frá Y. desember til 16. desember 2014 en óumdeilt er að kærandi var á innlendum vinnumarkaði í skilningi ffl. á öðrum tíma ávinnslutímabilsins.

Kærandi byggir á því að hún hafi verið ráðin í vinnu frá 1. desember 2014 og unnið rúmlega 25% starfshlutfall þann mánuð þrátt fyrir að hafa hafið störf 17. desember. Í ljósi gagna málsins, einkum launaseðils kæranda fyrir desembermánuð sem sýnir að hún vann 43 vinnustundir í þeim mánuði, verður að fallast á það með henni að skilyrðið um 25% starfshlutfall sé uppfyllt, hvað sem líði skráningu ríkisskattstjóra á 20% starfshlutfalli. Í gögnum málsins liggur hins vegar fyrir staðfesting vinnuveitanda kæranda, dags. 17. febrúar 2015, þess efnis að hún hafi starfað hjá fyrirtækinu í 25-49% starfshlutfalli frá 17. desember 2014. Að því virtu er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, en ekkert hefur komið fram í málinu um að stafliðir 2. mgr. 13. gr. a ffl. geti átt við um kæranda á því tímabili sem deilt er um.

Einungis vantar nokkra daga upp á að kærandi uppfylli framangreint skilyrði ffl. Hins vegar er enga heimild að finna í ffl. né reglugerð sem sett hefur verið með stoð í lögunum til að víkja frá ákvæðum 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. við mat á því hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns sem átt getur við í tilviki kæranda.

Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi fengið rangar upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði sem hafi leitt til þess að hún hafi tapað rétti sínum til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Foreldri getur ekki öðlast rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli ffl. vegna rangrar eða ófullnægjandi upplýsingagjafar þótt sönnuð væri. Ágreiningur um hugsanlegan rétt foreldris sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna rangrar upplýsingagjafar ræðst af almennum reglum skaðabótaréttarins og fellur því ekki undir valdsvið nefndarinnar að úrskurða um slíkan ágreining.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. júní 2015, um að synja umsókn A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta