Ríkið eykur greiðsluþátttöku sína í heyrnartækjum
Heilbrigðisráðherra hefur undirritað reglugerðir sem fela í sér hækkun á greiðsluþátttöku ríkisins í heyrnartækjum úr 30.800 krónum í 50.000 krónur. Áætlað er að kostnaður ríkisins vegna þessa aukist um tæpar 58 milljónir króna á ári miðað við óbreyttan fjölda tækja.
Þeir sem eru sjúkratryggðir hér á landi eiga rétt á að ríkið taki þátt í kostnaði við kaup á hjálpartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð Íslands útvegar, samkvæmt reglugerð nr. 1118 frá árinu 2006. Þegar sú reglugerð var sett kostuðu ódýrustu fáanleg heyrnartæki tæpar 30.000 krónur. Nú kosta ódýrustu heyrnartæki sem völ er á um 55.000 krónur þannig að kostnaður fólks vegna heyrnartækjakaupa hefur aukist verulega. Hækkunin sem heilbrigðisráðherra hefur nú ákveðið tekur að fullu mið af vísitölubreytingum frá því að fyrri reglugerð var sett árið 2006.
Auk þessa hefur ráðherra undirritað reglugerð um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöðinni. Þar er kveðið á um sömu hækkun, þ.e. úr 30.800 krónum í 50.000 krónur.
Í reglugerðunum er kveðið á um skilyrði fyrir greiðsluþátttöku ríkisins í kaupum á heyrnartækjum þar sem fram koma ákveðin viðmið um heyrn viðkomandi og um hve langt þarf að líða á milli endurnýjunar tækja.
Nýju reglugerðirnar sem settar eru með heimild í í lögum um Heyrnar- og talmeinastöð nr. 42/2007 verða birtar í Stjórnartíðindum innan skamms og öðlast þá gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1118/2006 og reglugerð nr. 146/2007.