Unnið að verkefnum í loftslagsmálum
Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra kynnti í dag í ríkisstjórn tillögur að áherslum Íslands í loftslagsmálum, sem kynntar verða í tengslum við 21. aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París í desember næstkomandi.
Stefnt er að því að þjóðir heims gangi frá frá nýju samkomulagi í loftslagsmálum á fundinum í París. Um 150 ríki hafa tilkynnt um markmið sín um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda eftir 2020 og ná þau markmið til nær 90% heimslosunar. Til samanburðar nær Kýótó-bókunin, sem gildir til 2020, til um 40 ríkja og um 15% losunar. Væntanlegt samkomulag í París á að verða rammi utan um markmið ríkja og tryggja að hægt sé að bera þau saman, mæla árangur og þrýsta á frekari aðgerðir.
Ísland tilkynnti um markmið sitt 30. júní sl. til skrifstofu Loftslagssamningsins eftir samþykkt ríkisstjórnar sama dag, um að stefna að þátttöku í sameiginlegu markmiði um 40% minnkun losunar til 2030 miðað við 1990 í samvinnu við Noreg og ríki ESB.
Undanfarið hefur verið unnið að undirbúningi ýmissa verkefna sem stuðla eiga að minnkun nettólosunar á Íslandi og stuðningi við aðgerðir á alþjóðavísu. Unnið er að greiningu á möguleikum Íslands til að draga úr nettólosun til 2030 á vegum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og mun eflt starf í loftslagsmálum taka mið af þeirri greiningu, til að ná markmiðum á árangursríkan og hagkvæman hátt. Ætlunin er að kynna ný verkefni í loftslagsmálum í tengslum við fundinn í París.