Rjúpnaveiðin hefst 23. október
Veiðidagar rjúpu verða tólf talsins í ár og skiptast á fjórar helgar á tímabilinu 23. október til 15. nóvember 2015. Náttúrufræðistofnun Íslands metur veiðiþol rjúpnastofnsins 54 þúsund rjúpur. Sölubann á rjúpum er í gildi og fylgir Umhverfisstofnun því eftir.
Í reglugerð um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum eru tilgreindir veiðidagar rjúpu til þriggja ára. Meginstefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins skuli vera sjálfbær og að rjúpnaveiðimenn stundi hóflega veiði til eigin nota. Stundaðar eru rannsóknir og vöktun á stofninum og er stjórnkerfi rekið í því skyni að stýra veiðinni.
Meginþættir veiðistjórnunar á rjúpu hafa verið þrír; Í fyrsta lagi sölubann, í öðru lagi hvatning um hófsemi og í þriðja lagi sóknardagar og hefur heildarveiði rjúpu minnkað töluvert á undanförnum árum. Eru veiðimenn hvattir til að veiða ekki fleiri rjúpur en hver og einn þarf auk þess sem þeir eru beðnir að gæta þess að særa ekki fugl umfram veiði.
Veiðiverndarsvæði er áfram á SV-landi.
Veiðitímabilið skiptist á fjórar helgar með eftirfarandi hætti:
- Föstudaginn 23. október til sunnudags 25. október, þrír dagar.
- Föstudaginn 30. október til sunnudags 1. nóvember, þrír dagar.
- Föstudaginn 6. nóvember til sunnudags 8. nóvember, þrír dagar.
- Föstudaginn 13. nóvember til sunnudags 15. nóvember, þrír dagar.
Veiðimenn eru hvattir til góðrar umgengi um landið.
Greinargerð Náttúrufræðistofnunar Íslands um mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins haustið 2015.