Hoppa yfir valmynd
23. október 2015 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra fundar með framkvæmdastjóra UN Women og undirritar samstarfssamning við Landsnefnd

Gunnar Bragi og Phumzile
GBS-og-Phumzile

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastjóri UN Women og aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, funduðu síðdegis í dag, en hún er í heimsókn á landinu í boði hans og félags- og húsnæðismálaráðherra. Á fundinum var rætt um gott samstarf utanríkisráðuneytisins og UN Women, en stofnunin er ein af fjórum áherslustofnunum Íslands á sviði fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu. 

„Það er mér sérstök ánægja að taka á móti frú Phumzile hér á landi en við höfum átt mjög gott og náið samstarf um þær leiðir sem hægt er að fara til að vinna að jafnrétti. Við ræddum m.a. HeForShe herferðina til að hvetja karlmenn til að taka þátt í að eyða kynjamisrétti en við höfum stutt hana, t.d. með rakararáðstefnunni sem við héldum hjá SÞ í New York í janúar. Þá höfum við stutt fjölmörg verkefni og sent fjölda starfsmanna til að starfa á vegum UN Women víða um heim,“ sagði Gunnar Bragi. 

Utanríkissáðherra og Phumzile Mlambo-Ngcuka ávörpuðu einnig alþjóðlega ráðstefnu í Hörpu í tilefni 100 ára kosningaréttar kvenna. Í ávarpi sínu sagði ráðherra frá áherslu utanríkisráðuneytisins að flétta kynjajafnrétti inn í málefnavinnu, jafnt  þróunarsamvinnu sem varnar- og öryggismál, og ræddi nauðsyn þess að fá karla að borðinu í jafnréttisumræðunni.  
Undirritun með UN Women
Í kjölfar fundar Gunnars Braga og Phumzile Mlambo-Ngcuka, undirrituðu hann og Guðrún Ögmundsdóttir, formaður stjórnar landsnefndar UN Women samstarfssamning ráðuneytisins við landsnefndina fyrir tímabilið 2016-2018. Um er að ræða fjórða samninginn sem undirritaður er til þriggja ára í senn, en frá árinu 2007 hafa ráðuneytið og landsnefndin gert með sér formlega samninga um samstarfið. 

Samstarf við landsnefndina hefur reynst farsælt, en eitt helsta markmið samningsins er að stuðla að vitundarvakningu og sinna fræðslu- og upplýsingastarfi um störf UN Women, kynjajafnrétti og málefni kvenna í þróunarlöndum. Auk þess sem landsnefndin veitir almenna ráðgjöf og umsögn vegna málefna á fjölþjóðlegum vettvangi og sinnir fræðslu um jafnréttismál fyrir sérfræðinga sem fara til starfa á vettvangi á vegum utanríkisráðuneytisins. 

Á næstu þremur árum stefnir landsnefndin á viðamikið kynningarátak og fræðsluherferð um HeforShe á Íslandi.  Þá mun landsnefndin leggja aukna áherslu á að fræða almenning um þátttöku UN Women í mannúðarstarfi, en stofnunin hefur nýlega hafið stuðning á þeim vettvangi, sem m.a. felst í stuðningi við konur sem búa við neyð, áherslu á öryggi t.d. í flóttamannabúðum og fræðslu til samtaka sem sinna mannúðarstarfi svo fátt eitt sé nefnt

Framlög til landsnefndarinnar nema samtals 39 milljónum á gildistíma samningsins, eða 13 m.kr. á ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta