Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, átti í morgun fund með utanríkisráðherrum Norðurlandanna í tengslum við þing Norðurlandaráðs, sem nú stendur yfir í Hörpunni. Ræddu ráðherrarnir meðal annars hið erfiða ástand vegna flóttmannastraumsins frá Sýrlandi og öðurm nálægum svæðum til Evrópu sem og pólitíska ástandið á þessum slóðum. Samskiptin við Rússland og staðan í Úkraínu voru einnig á dagskrá, sem og norrænt samstarf í utanríkis- og öryggismálum, meðal annars á sviði netöryggismála.
Gunnar Bragi og aðrir utanríkisráðherrar Norðurlandanna áttu einnig sérstakan fund með forsætisnefnd Norðurlandaráðs þar sem meðal annars var rætt um norrænt samstarf á Norðurslóðum. Á fundinum var einnig rætt um flóttamannavandann og stöðu mála í Úkraínu og Rússlandi.
Á þingi Norðurlandaráðs var nú síðla dags sérstök utanríkispólitísk umræða. Í ræðu sinni lagði utanríkisráðherra áherslu á samstöðu og samstarf Norðurlandanna í utanríkismálum. Í máli sínu beindi Gunnar Bragi sjónum að ástandinu í Sýrlandi og flóttamannavandanum. Greindi hann frá stuðningi ríkisstjórnarinnar til stofnanna á stríðshrjáðu svæðunum og vegna komu flóttamanna hingað til lands. Einng ræddi ráðherra stöðu mála í Úkraínu og fyrirhuguð aukin framlög Íslands til samstöðuaðgerða Atlantshafsbandalagsins. Þá áréttaði Gunnar Bragi mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið næði markverðum árangri á loftslagsráðstefnunni í París í desember nk.
Utanríkisráðherrar Íslands og Noregs undirrituðu síðdegis samkomulag um áframhaldandi vísindasamstarf á norðurslóðum. Einnig hefur Gunnar Bragi átt, í tengslum við þingið, tvíhliða fundi með varnarmálaráðherra Svíþjóðar og forseta þings Evrópuráðsins.
Utanríkisviðskiptaráðherrar Norðurlandanna funduðu einnig fyrr í dag þar sem m.a. var rætt um stöðu mála á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og undirbúning ráðherrafundar hennar í desember n.k. Gerð var grein fyrir stöðu fríverslunarviðræðna ESB og Bandaríkjanna og skipst á skoðunum varðandi samskipti við Kína og Rússland.
Norrænir þróunarmálaráðherrar funduðu síðdegis, en á dagskrá voru tvö megin umræðuefni. Annars vegar Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt voru í september síðast liðnum, en ráðherrarnir ræddu þar möguleika á aukni norrænu samstarfi við að koma markmiðunum í framkvæmd. Hins vegar ræddu ráðherrarnir hinn vaxandi flóttamannavanda sem blasir við, og sérstaklega tengsl hans við þróunarsamvinnu.