Hoppa yfir valmynd
29. október 2015 Innviðaráðuneytið

Ræddi samgöngumál og sveitarstjórnarmálefni á ársþingi SASS

Ólöf Nordal flutti ávarp á ársþingi Sambands sunnlenskra sveitarfélaga - mynd
Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ávarp á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem nú stendur í Vík í Mýrdal. Fjallaði ráðherra um samgönguframkvæmdir, vetrarþjónustu á vegum á Suðurlandi, almenningssamgöngur, almannavarnir og viðbúnað vegna mögulegra flóða úr Mýrdalsjökli og eflingu sveitarstjórnarstigsins. Auk innanríkisráðherra fluttu ávarp þeir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Meðal efnis á ársfundinum auk ávarpa gesta var umfjöllun um svæðisskipulagsáætlun fyrir Suðurland, ljósleiðaravæðing landsbyggðarinnar, raforkuöryggi og sameining sveitarfélaga.

Í ávarpi sínu sagði innanríkisráðherra að eitt umfangsmesta samgönguverkefnið á Suðurlandi væri breyting á Hringveginum yfir Reynisfjall, þ.e. hvort endurbyggja ætti kafla vegarins vestan í fjallinu eða leggja nýjan vegarkafla með jarðgöngum. Ráðherra sagði þessa tvo kosti í stöðunni en ljóst væri að jarðgangaleiðin væri mun dýrari og að varla yrði ráðist í hana á næstu árum. Annað umfangsmikið verkefni sagði ráðherra vera brú á nýjum stað yfir Hornafjarðarfljót með tilheyrandi nýjum vegarkafla sem nú væri í undirbúningi svo og breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss. Einnig kom ráðherra inn á vetrarþjónustu á vegum og fjallaði meðal annars um óskir ferðaþjónustufyrirtækja um meiri þjónustu á fjölförnum ferðamannaleiðum. Hvað hún vonir standa til að smám saman yrði hægt að auka vetrarþjónustu enda væri hún jafnframt spurning um öryggi á vegum.

Þá minntist ráðherra á almannavarnamál og þann viðbúnað sem unnið hefur verið að vegna mögulegra flóða í Kötlugosi. Er unnið að mati á gerð varnargarða vegna hugsanlegrar flóðahættu og fjárhagsáætlun fyrir þetta verkefni og kemur Vegagerðin kemur einnig við sögu hvað varðar viðbúnað vegna samgangna. Þá sagði ráðherra eflingu sveitarstjórnarstigsins er viðvarandi verkefni í ráðuneyti sveitarstjórnarmála og gat um að sum Norðurlandanna ynnu nú að víðtækum umbótaverkefnum á sveitarstjórnarstiginu. Ráðherra minntist á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í þessu samhengi og hvernig hann hefði við sameiningar sveitarfélaga stutt fjárhagslega við athuganir og rannsóknir á sameiningarkostum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta