Áform um gestastofu á Kirkjubæjarklaustri kynnt í ríkisstjórn
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti í morgun í ríkisstjórn áform um byggingu gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri. Ráðuneytið hefur lagt fram tillögu til fjárlaga um 150 milljóna króna fjárheimild til þriggja ára vegna byggingarinnar.
Samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð skal starfrækja starfstöðvar þjóðgarðsins á sex stöðum, þar með töldu Kirkjubæjarklaustri. Framkvæmdasýsla ríkisins vinnur nú að því að endurskoða rýmisþörf gestastofu fyrir hönd Vatnajökulsþjóðgarðs. Gert er ráð fyrir að framkvæmdin verði áfangaskipt. Í fyrsta áfanga verði reist bygging sem hýsi gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og skrifstofur þjóðgarðsvarðar en möguleiki verði á stækkun síðar sem gæti hýst ýmiskonar fræða- og menningarstarfsemi. Gróf áætlun heildarkostnaðar fyrsta áfanga er um 450 milljónir króna.
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur unnið að málinu í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð og heimamenn með það að markmiði að mæta þörfum og skuldbindingum þjóðgarðsins um leið og innviðir samfélagsins og atvinnulíf á staðnum er eflt.