Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Norræn innkaupavika stendur yfir

Norræna umhverfismerkið Svanurinn

Vika grænna opinbera innkaupa hófst í gær á Norðurlöndum. Í Reykjavík er boðið til morgunverðarfunda og ráðstefnu um opinber innkaup auk þess sem norræna umhverfismerkið Svanurinn verður ofarlega á baugi.

Opinber innkaup geta haft talsverð áhrif á framboð og gæði vara og þjónustu enda er talið að þau séu um 20% af vergri landsframleiðslu. Með því að setja umhverfisskilyrði við opinber innkaup er þannig hægt að auka framboð vistvænna vara og þjónustu, ekki bara til opinberra aðila heldur einnig á almennum markaði.

Lög og stefnur íslenska ríkisins endurspegla aukna áherslu á vistvæn opinber innkaup. Í innkaupastefnu ríkisins segir m.a. að við innkaup skuli tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Þetta er einnig undirstrikað í lögum um opinber innkaup og í stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi. Í stefnu ríkisins um vistvæn innkaup ríkisins og grænan ríkisrekstur 2013-2016 er fjallað um hvernig samþætta á umhverfissjónarmið góðum innkaupaháttum við innkaup ríkisins og hvernig opinberir aðilar geti gert rekstur sinn grænni með það að markmiði að draga úr umhverfisáhrifum opinberrar starfsemi. Jafnframt er hvatt til nýsköpunar og samkeppni á markaði um leiðir til að minnka álag á umhverfið.

Dagskrá norrænnar innkaupaviku er sem hér segir:

2. nóvember  -  Morgunverðarfundur  um Innkaupanetið, félagsskap fyrirtækja í frjálsum atvinnurekstri sem vilja stunda ábyrg, græn innkaup. Allir velkomnir. Nauthóll, kl. 9.00 til 10.30

3. nóvember  -  Ráðstefna Ríkiskaupa undir yfirskriftinni: „Hvernig við eyðum almannafé skiptir máli. Skyldi nokkuð koma til handalögmála?“ Grand Hótel Reykjavík, kl. 8.30 til 15.30

3. nóvember  -  Kaupstefna Svansins, þar sem kynntar verða Svansvottaðar vörur og þjónusta.  Allir velkomnir. Grand Hótel Reykjavík, kl. 12.00 til 17.00

4. nóvember  -  Morgunverðarfundur  um Græn skref í ríkisrekstri. Reynslusögur frá öðrum stofnunum og skoðað hvernig Umhverfisstofnun gerir hlutina. Allar stofnanir velkomnar. Umhverfisstofnun, Suðurlandsbraut 24, kl. 08.30 til 10.30

5. nóvember  -  Morgunverðarfundur  um markaðssetningu á Svansvottuðum vörum. Allir leyfishafar og birgjar Svansvottaðra vara velkomnir. Nauthóll, kl. 9.00 til 10.30

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta