Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Tillaga að stefnu í geðheilbrigðismálum kynnt í ríkisstjórn

Stjórnarráðshúsið
Stjórnarráðshúsið

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í morgun tillögu að þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Aukin vellíðan, betri geðheilsa og virkari samfélagsþátttaka fólks með geðraskanir óháð búsetu eru meginmarkmið tillögunnar.

Ráðist var í mótun geðheilbrigðisstefnunnar í samræmi við ályktun Alþingis frá 15. janúar 2014 þar sem meðal annars var kveðið á um innihald slíkrar stefnu og að henni skyldi fylgja áætlun um fjárframlög.

Í tillögunni sem ráðherra kynnti ríkisstjórn í morgun er áhersla lögð á að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé samþætt og samfelld, að uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra og að einstaklingum á Íslandi verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Til að nálgast þessi markmið er meðal annars lagt til að leitt verði í lög að sveitarfélög og ríki geri með sér samkomulag um hvernig þau ætli sameiginlega að sinna þjónustu við fólk með geðrænan vanda á viðkomandi þjónustusvæðum. Lagt er til að framboð sálfræðiþjónustu verði aukið í heilsugæslu, komið verði á fót geðheilsuteymum, barna- og unglingageðdeild Landspítala verði styrkt, þekking í félags- og heilbrigðisþjónustu verði efld til að takast á við vægari vandamál, stuðningur við börn foreldra með geðvanda verði aukinn og að á hjúkrunarheimilum verði byggð upp þekking starfsfólks til að þjóna fólki með geðraskanir sem þar dvelur.

Í tillögunni eru lagðar til aðgerðir á sviði forvarna sem beinast einkum að börnum og eru ætlaðar til að draga úr þróun geðvanda meðal barna. Lagt er til að sett verði á fót teymi til að sinna ráðgjöf og styðja foreldra og fjölskyldur, skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi meðal grunnskólabarna og unnið að aðgerðum til að veita vandaða geðrækt í skólum og til að draga úr sjálfsvígum meðal ungmenna.

Áhersla er lögð á aðgerðir til að draga úr fordómum, meðal annars með gerð leiðbeininga varðandi umfjöllun um mál sem varða fólk með geðvanda.

Allar aðgerðir sem lagðar eru til í þingsályktunartillögunni hafa verið kostnaðarmetnar og er heildarkostnaður vegna þeirra áætlaður rúmar 560 milljónir króna. Vegur þar þyngst stofnun geðheilsuteyma, ráðningar sálfræðinga á heilsugæslustöðvar og áform um að efla þjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítala.

Við undirbúning þingsályktunartillögunnar var áhersla lögð á víðtækt samráð, meðal annars með opnum kynningarfundi í upphafi vinnunnar og stofnun starfshópa sem fjölluðu um tiltekna þætti geðheilbrigðismála. Drög að tillögu voru sett á vef velferðarráðuneytisins sumarið 2015 og óskað umsagna. Umsagnir bárust frá 28 aðilum og var farið vandlega yfir þær allar og mörgum atriðum í áætluninni breytt til samræmis við athugasemdir. 

Geðheilbrigðisstefnan verður nú lögð fyrir Alþingi sem tillaga til þingsályktunar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta