Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2015 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Íslands og Víetnam funda í Hanoi

Frá fundi utanrikisráðherra í Víetnam

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Pham Binh Minh, utanríkisráðherra Víetnam. Fundurinn var haldinn í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands til landsins. Ráðherrarnir ræddu möguleika á að styrkja tengsl ríkjanna og auka viðskipti. Utanríkisráðherra Víetnam lýsti vilja sinna stjórnvalda til að hraða fríverslunarviðræðum við EFTA ríkin sem eru langt komnar. 

Ráðherrarnir ræddu aukið samstarf m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem víetnamski ráðherrann sagði áhuga á að læra af reynslu og þekkingu Íslendinga í hafréttarmálum. Jafnframt urðu ráðherrarnir ásáttir um að vinna að samkomulagi um afnám vegabréfsáritana fyrir íslenska ríkisborgara sem ferðast til Víetnam. Utanríkisráðherra lagði áherslu á mikilvægi mannréttinda almennt og gerði jafnrétti kynjanna að umtalsefni þar sem Íslendingar hefðu náð markverðum árangri. Fram kom gagnkvæmur áhugi á að fjölga nemendum frá Víetnam í Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, jafnframt því sem ráðherra benti á Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Loks ræddu ráðherrarnir m.a. flóttamannamálin í Evrópu og stöðu mála í Suður –Kínahafi.

Að loknum fundi undirritaði utanríkisráðherra ásamt Vu Huy Hoang, viðskipta- og iðnaðarráðherra Víetnam, samkomulag um samstarf landanna í jarðhitamálum. 

Myndir frá Víetnam er að finna á Flickr-síðu ráðuneytisins: https://www.flickr.com/photos/utanrikisraduneyti/?

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta