Í tilefni af fréttaflutningi um atkvæðagreiðslu á vettvangi SÞ
Í tilefni af fréttaflutningi um atkvæðagreiðslu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í liðinni viku vill utanríkisráðuneytið koma á framfæri:
Í ályktuninni sem vísað hefur verið til er lagður grunnur að nýju ferli sem kynni að veikja enn frekar samninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT) og samninginn um allsherjarbann við tilraunum kjarnavopna (CTBT), sem eru þeir samningar sem við lýði eru og hafa það að markmiði að minnka ógnina af kjarnavopnum. Til þess að ná því markmiði að útrýma öllum kjarnavopnum þurfa allir hlutaðeigandi aðilar að koma að borðinu og mynda núverandi samningar umgjörð um slíkar viðræður.
Í atkvæðaskýringum þeirra 27 ríkja, þ.m.t. Íslands, sem ekki studdu ályktunina kemur enda fram að öll ríkin eru sammála um að stefna að kjarnorkuvopnalausri veröld og að eyða kjarnavopnum með markvissum og gagnkvæmum hætti. Einnig kemur fram í máli ríkjanna að enginn efast um geigvænlegar afleiðingar af beitingu slíkra vopna. Munurinn er sá að Ísland og líkt þenkjandi ríki vilja styðjast við þá samninga og ferli sem fyrir liggja og telja þá leið raunhæfasta til að ná fram afvopnun og útrýmingu kjarnavopna. Í þessu tilliti má geta þess að Ísland hefur stutt yfirlýsingu um afleiðingar kjarnavopna á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2012 og NPT frá árinu 2013. Síðast í vor studdi Ísland yfirlýsinguna á endurskoðunarráðstefnu NPT.