Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Breyta þarf löggjöf til að jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega meðforsjá barna sinna

Frá fundi innanríkisráðuneytisins í dag um skipta búsetu barna. - mynd

Innanríkisráðuneytið stóð í dag fyrir morgunverðarfundi um skipt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Tilefnið er skýrsla starfshóps sem innanríkisráðherra skipaði í byrjun árs 2015 en hópnum var falið að kanna með hvaða leiðum mætti jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna. Skýrslan var unnin í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögu á Alþingi 12. maí 2014.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ávarp í upphafi fundar og síðan fjallaði Þórhildur Líndal, lögfræðingur og fv. forstöðumaður Rannsóknarstofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni og formaður starfshópsins, um helstu niðurstöður hans. Guðmundur Steingrímsson alþingismaður, sem var flutningsmaður áðurnefndrar þingsályktunartillögu, flutti einnig ávarp.

Innanríkisráðherra sagði í upphafi að skipt búseta barna væri ofarlega á baugi og að málið hefði verið rætt á Alþingi að frumkvæði Guðmundar Steingrímssonar sem fór fyrir hópi þingmanna sem flutti þingsályktunartillögu um málið og þakkaði hún honum forgöngu hans í málinu. Ráðherra rifjaði upp að sameiginleg forsjá foreldra í kjölfar skilnaðar hefði verið lögleidd árið 1992. Í fyrstu hefðu 10% foreldra farið þá leið en í dag væru það um 90% foreldra. Þá benti ráðherra á að yfir 90% barna ættu lögheimili hjá móður. Ráðherra sagði einnig að málið snerist um að gera sér grein fyrir aðstöðumun foreldra og barna þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barna sinna en búa ekki saman. Þessi aðstöðumunur snúist um réttindi og skyldur og réttindi þeirrar skráningar sem fylgir lögheimili barns sem í dag er hjá öðru hvoru foreldrinu þótt foreldrarnir deili forræðinu með sér.

Þá sagði Ólöf Nordal skýrsluna hafa að geyma ítarlega greiningu á þeim aðstöðumun sem væri á milli foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna en búa ekki saman. Niðurstaðan væri meðal annars sú að misbrestur sé á því að íslensk löggjöf styðji jafnt við báða foreldra og er því er afar nauðsynlegt að gera breytingar þar á enda um mikilvægt málefni að ræða sem snertir mörg börn og margar fjölskyldur. Málefnið næði inn á mörg svið og næði til margra ráðuneyta og ljóst að breytingin kallaði á samstarf þeirra sem verkefnið snerti. Hún sagði vinnu þegar farna af stað í innanríkisráðuneytinu og vinna þyrfti markvisst að því og kanna með nákvæmum hætti hverju þyrfti að breyta bæði ákvæðum laga og reglugerða svo og verklagi til þess að skipt búseta barns kæmist á.

Ólöf Nordal ávarpaði fundinn. Einnig tóku til máls þau Þórhildur Líndal og Guðmundur Steingrímsson.

Breyta þarf ýmsum lögum

Þórhildur Líndal gerði grein fyrir verkefninu og fór yfir helstu atriði í niðurstöðum starfshópsins. Kom meðal annars fram í máli hennar að hópurinn hefði kannað lög og reglugerðir ítarlega, leitað til sérfræðinga og hagsmunaaðila, kannað norrænan rétt og rannsóknir á þessu sviði. Meðal niðurstaðna hópsins er að setja þyrfti nýtt heimildarákvæði í barnalög, foreldrar yrðu að gera með sér samning um skipta búsetu barns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og að ekki verði unnt að úrskurða eða dæma um skipta búsetu barns. Þá sagði hún fimm meginþætti skiptrar búsetu vera að ákvarðanir skuli teknar í sameiningu, að opinber stuðningur ríkis og sveitarfélaga skiptist jafnt á milli foreldra, meðlag falli sjálfkrafa niður og að skipt búseta verði skráð hjá Þjóðskrá Íslands. Lykilatriði sagði hún vera að hagsmunir barns sitji ávallt í fyrirrúmi. Skilyrði fyrir skiptri búsetu sagði Þórhildur vera sameiginlega forsjá foreldranna, samkomulag um hvar lögheimili barns skyldi vera, gott samstarf foreldra, stutt væri milli heimilanna og að foreldrar sæki ráðgjöf áður en sýslumaður getur staðfest skipta búsetu. Þá sagði formaðurinn hópinn benda á að komi til ágreinings milli foreldra og að forsendur skiptrar búsetu séu ekki lengur fyrir hendi verði slíkum ágreiningi vísað til sáttameferðar hjá sýslumanni.

Jafna þarf aðstöðumun foreldra

Guðmundur Steingrímsson alþingismaður þakkaði fyrir fundinn og skýrslu starfshópsins sem hann sagði vandaða og hafa að geyma góðar og uppbyggilegar tillögur. Hann sagði áhuga sinn á málinu sprottinn af eigin reynslu, hann væri foreldri barns sem byggi bæði hjá sér og hjá móður þess í næstu götu. Barnið hafi ávallt búið hjá báðum foreldrum og fyrirkomulagið gengið vel. Hann sagði að þrátt fyrir þetta samkomulag foreldranna hefði hann rekist á að varðandi ýmsa opinbera þjónustu hefði hann sem faðir lítið að segja, formleg samskipti hins opinbera væru við móður þar sem lögheimili barnsins væri hjá móður. Hann sagði umgengnisforeldra ekki skráða sem foreldra í þjóðskrá og það hefði ýmsa galla í för með sér en samþykkt hefði verið þingsályktun um slíka skráningu Þjóðskrár Íslands.

Guðmundur sagði lagaumhverfið reisa því óeðlilegar skorður að foreldrar hefðu skipta búsetu barna sinna og því þyrfti að breyta og fagnaði hann tillögum starfshópsins um tilteknar lagabreytingar til að jafna aðstöðumun þessara foreldra. Lagaumhverfið væri ekki í neinu samræmi við veruleikann í dag þegar báðir foreldrar vildu í ríkum mæli deila með sér uppeldi barna sinna þó að þeir byggju ekki saman. Kvaðst hann fagna áhuga ráðherra á þessu máli og hvatti til að næsta skref yrði að innleiða nauðsynlegar breytingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta