Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2015 Utanríkisráðuneytið

Áhrif fríverslunarsamnings ríkja við Kyrrahafið rædd á ráðherrafundi EFTA

EFTA ráðherrar
EFTA ráðherrar

 

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sat í dag ráðherrafund EFTA í Genf. Á fundinum ræddu ráðherrarnir m.a. áhrif fríverslunarsamnings 12 ríkja beggja megin Kyrrhafsins (Trans Pacific Partnership Agreement) og stöðu fríverslunarviðræðna Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Ákváðu ráðherrarnir að stefna að því að þróa nánar viðskiptasamráð EFTA við Bandaríkin.

 

Ráðherrarnir fögnuðu jafnframt þeirri ákvörðun EFTA og Kanada að hefja formlegar könnunarviðræður um endurskoðun á fríverslunarsamningi ríkjanna frá 2008. Einnig ákváðu ráðherrarnir að hefja viðræður við Mexíkó um endurskoðun á fríverslunarsamningi ríkjanna frá 2000.

 

Ráðherrarnir fóru yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Filippseyjar, Georgíu, Malasíu og Víetnam og ítrekuðu áhuga sinn að ljúka viðræðum um gerð fríverslunarsamnings við Indland.

 

Þá fóru ráðherrarnir yfir stöðu könnunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Mercosur, viðskiptabandalags Argentínu, Brasilíu, Paragvæ, Úrúgvæ og Venesúela og ítrekuðu vilja sinn til að hefja fríverslunarviðræður við Ekvador á næsta ári. Ráðherrarnir ræddu einnig um hvernig styrkja mætti tengsl EFTA við ríki í Afríku sunnan Sahara og ákváðu í þeim efnum að stefna að undirritun samstarfsyfirlýsingar EFTA við bandalag ríkja í Austur-Afríku (East African Community) en aðild að því eiga Búrúndí, Kenýa, Rúanda, Tansanía og Úganda.

 

Ráðherrarnir funduðu með Michael Punke, varaviðskiptafulltrúa Bandaríkjanna og fastafulltrúa þeirra gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni, um fríverslunarviðræður Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Þá áttu ráðherrarnir fund með þingmannanefnd EFTA.

Fundinn sátu auk Gunnars Braga; Johann Schneider-Ammann, efnahagsráðherra Sviss, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Vidar Helgesen, ráðherra EES- og ESB-mála í Noregi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta