Undirritun samninga við sveitarfélög um móttöku flóttafólks
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrarkaupstaðar, og Haraldur Líndal Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar, undirrituðu í dag samninga um móttöku 55 sýrlenskra flóttamanna sem væntanlegir eru til landsins í næsta mánuði.
Undirbúningur að móttöku flóttafólksins hefur staðið yfir um nokkurt skeið í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCHR). Hópurinn samanstendur af tíu fjölskyldum; 20 fullorðnum einstaklingum og 35 börnum og dvelur fólkið allt í flóttamannabúðum í Líbanon. Af hópnum munu 23 setjast að á Akureyri, 17 í Hafnarfirði og 15 í Kópavogi.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir gleðilegt að nú sé komið að því að bjóða flóttafólkið velkomið til landsins: „Ég er þess fullviss að sveitarfélögin og aðrir sem hlutverki hafa að gegna muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að taka sem allra best á móti fólkinu þannig að því geti liðið hér vel og aðlagast íslensku samfélagi. Við landsmenn eigum að sameinast um þetta verkefni og leggja metnað okkar í að gera það sem best.“
Samið um stuðning til tveggja ára
Það nýmæli er í samningunum sem undirritaðir voru í dag að móttökuverkefnið tekur til tveggja ára í stað eins áður. Þetta er gert í samræmi við ábendingar sveitarfélaga sem telja í ljósi reynslu að flóttafólk hafi þörf fyrir stuðning í kjölfar komu hingað til lands um lengri tíma en áður hefur verið miðað við. Gert er ráð fyrir að greiðslur ríkisins til sveitarfélaganna á samningstímanum nemi samtals 173,4 milljónum króna.
Í viðmiðunarreglum flóttamannanefndar um móttöku og aðstoð við flóttafólk er staða flóttafólks og réttindi þeirra skilgreind, fjallað um inntak þeirrar aðstoðar sem flóttafólk skal njóta fyrst eftir komu sína til landsins og gerð grein fyrir kostnaðarskiptingu vegna þess milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga. Í grófum dráttum snúa þessi verkefni að því að tryggja fólki húsnæði, félagslega ráðgjöf, menntun og fræðslu, heilbrigðisþjónustu, aðstoð við atvinnuleit og fjárhagsaðstoð til framfærslu.
Í samræmi við viðmiðunarreglur flóttamannanefndar verða skipaðir samráðshópar um stuðning og aðlögun flóttafólksins þar sem sæti eiga tveir fulltrúar sveitarfélags, fulltrúi deildar Rauða krossins í viðkomandi sveitarfélagi og fulltrúi velferðarráðuneytis sem er formaður hópsins.
Rauði krossinn á Íslandi kemur að móttöku flóttafólksins í hverju sveitarfélagi þar sem hann útvegar fólkinu nauðsynlegt innbú á heimili þeirra og hefur jafnframt umsjón með stuðningsfjölskyldum sem ætlað er að liðsinna flóttafólkinu við aðlögun. Velferðarráðuneytið og Rauði krossinn gera með sér samning um framkvæmd þessara verkefna.
Fylgiskjöl:
- Viðmiðunarreglur flóttamannanefndar um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólk
- Leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um móttöku og aðstoð við félagslega þátttöku flóttafólks
- Verkaskipting móttökusveitarfélags og velferðarráðuneytis
- Samningur velferðarráðuneytis og Akureyrarkaupstaðar um móttöku flóttafólks
- Akureyrarkaupstaður - fjárhagsáætlun vegna móttöku flóttafólks - Samingur velferðarráðuneytis og Hafnarfjarðarkaupstaðar um móttöku flóttafólks
- Hafnarfjarðarkaupstaður - fjárhagsáætlun vegna móttöku flóttafólks - Samningur velferðarráðuneytis við Kópavogsbæ um móttöku flóttafólks
- Kópavogsbær – fjárhagsáætlun vegna móttöku flóttafólks