Þýskalandsheimsókn umhverfis- og auðlindaráðherra
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, heimsótti Evrópsku veðurtunglastofnunina EUMETSAT í Darmstad í Þýskalandi og Íslandsvinafélagið í Köln og nágrenni í síðustu viku.
EUMETSAT er milliríkjastofnun um rekstur gervitungla sem ætlað er að útvega evrópskum veðurstofum gervitunglagögn til notkunar við veðurspár, veðurspárreikninga og loftslagsathuganir, ekki síst með hagsmuni aðþjóðaflugsins í huga. Ísland gerðist aðili að stofnuninni 2014 og hefur Veðurstofa Íslands, sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, notið góðs af gögnum EUMETSAT og tekið fullan þátt í stefnumarkandi ákvörðunum stofnunarinnar.
Við heimsókn ráðherra kynnti forstjóri EUMETSAT, Alain Ratier starfsemi stofnunarinnar. Þá heimsótti ráðherra stjórnstöð stofnunarinnar þar sem unnið er úr gögnum frá veðurtunglum og þau vistuð.
Þá sat ráðherra málþing Íslandsvinafélagsins í Köln og nágrenni í tilefni af 60 ára afmæli félagsins. Á annað hundrað manns sóttu þingið og hélt ráðherra þar erindi um íslensk umhverfis- og náttúruverndarmál og þær áskoranir sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir í þeim efnum.
Ráðherra og ráðuneytisstjóri ásamt sendiherra Íslands í Þýskalandi og fulltrúum Íslandsvinafélagsins í Köln.