Hoppa yfir valmynd
1. desember 2015 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita stofnaður 

Gunnar Bragi og Adnan Amin, framkvæmdastjóri IRENA.
Gunnar Bragi og Adnan Amin, framkvæmdastjóri IRENA.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti í dag opnunarávarp á fundi í tengslum við ríkjaráðstefnu loftlagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París, þar sem tilkynnt var um stofnun alþjóðlegs samstöðuhóps um nýtingu jarðhita (Global Geothermal Alliance). Á fjórða tug ríkja og stofnana eiga sæti í hópnum. Í ræðu sinni sagði utanríkisráðherra að alþjóðasamfélagið yrði að ná saman um metnaðarfull markmið í loftlagsmálum. Í því samhengi væri mikilvægt að nýta þá möguleika sem jarðhitinn, sem orkuauðlind, veitir víða um heim. Fagnaði Gunnar Bragi þeim mikla áhuga sem samstöðuhópurinn hefur vakið, en á meðal stofnenda með Íslandi eru Frakkland, Bandaríkin, Ítalía og Nýja Sjáland, fjölmörg þróunarríki og fjölþjóðlegar stofnanir og aðilar á borð við Alþjóðabankann, Afríkusambandið og svæðabundna þróunarbanka. Orkustofnun, Íslenskar orkurannsóknir - ÍSOR og Jarðhitaskóli háskóla SÞ eru ennfremur stofnaðilar.

Í ræðunni rakti utanríkisráðherra reynslu Íslendinga af nýtingu jarðhita og mikilvægi hans í að draga úr notkun jarðefniseldsneytis á Íslandi undanfarna þrjá áratugi. Þá undirstrikaði hann mikilvægi þess að auka menntun og þekkingu í jarðhita á meðal sérfræðinga frá þróunarlöndum með starfsemi Jarðhitaskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1978.

Ísland hefur verið í fararbroddi ríkja um stofnun samstöðuhópsins en alþjóðleg samtök um endurnýjanlega orkugjafa, IRENA, hafa leitt vinnuna og munu vista samstarfsvettvanginn, sem verður í Abu Dhabi. Með samstarfshópnum er ætlað að búa til vettvang ríkja, stofnana og fyrirtækja sem vinna að aukinni nýtingu jarðhita á heimsvísu.

Markmið samstarfsins er að auka hlutdeild jarðhita í orkubúskap heimsins, að fimmfalda raforkuframleiðslu fyrir 2030 og tvöfalda jarðhita til húshitunar á sama tíma. Þá er samstarfsvettvangurinn liður í að styðja við frumkvæði framkvæmdastjóra SÞ um að auka hlutfall sjálfbærrar orku um meira en helming fram til ársins 2030 (Sustainable Energy for All by 2030). 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta