Hafið og norðurslóðir í brennidepli á COP21
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra opnaði í dag tvo viðburði á aðildarríkjaþingi loftslagssamnings SÞ sem nú stendur yfir í París. Sá fyrri snerist um súrnun norðurhafa og umhverfisstjórnunarkerfi fyrir skip, en síðari viðburðurinn fjallaði um áhrif sót- og metanmengunar á norðurslóðum. Áhrif loftslagsbreytinga eru óvíða meiri en á norðurhveli jarðar þar sem þær hafa meðal annars áhrif á bráðnun jökla og súrnun sjávar.
Norðurskautsráðið hefur beint sjónum sínum í vaxandi mæli að þeim vanda sem útblástur veldur á norðurslóðum og starfa nú vinnuhópar vísindamanna að því að finna leiðir til að draga úr útblæstri og takast á við afleiðingar á svæðinu. Á undanförnum árum hefur ákoma sóts og metans á norðurslóðum dekkt hið hvíta yfirborð í vaxandi mæli og minnkað endurvarp þess. Það þýðir að jörðin heldur eftir meiri varma, sem aftur flýtir fyrir bráðnun.
Gunnar Bragi segir skilning á áhrifum loftslagsbreytinga hafa aukist mjög, meðal annars á því hvernig mikið magn útblásturs flýtti fyrir bráðnun jökla og íshella, sem aftur rynni svo í úthöfin og hefði áhrif á lífkerfi þeirra. „Norðurskautsríkin átta hafa skuldbundið sig til að vekja athygli á áhrifum sóts og metans á umhverfi, loftslag og heilsu íbúa norðurslóða. Þessir viðburðir hér á loftslagsráðstefnunni í París eru gott tækifæri til þess þar sem augu heimsins beinast nú sem aldrei fyrr að áhrifunum.“
Á viðburðinum um súrnun sjávar, greindi prófessor Jón Ólafsson frá niðurstöðum sínum um breytingar á sýrustigi í norðurhöfum sem hann hefur rannsakað hjá Hafrannsóknastofnun frá árinu 1984. Hann hefur einnig tekið þátt í rannsóknum á vegum vísindahóps AMAP sem heyrir undir Norðurskautsráðið. Auk hans töluðu Sigríður Ragna Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Hafsins sem er samstarfsvettvangur um verndun og tækniþróun tengda málefnum hafsins og Þorsteinn Svanur Jónsson frá ARK Technology sem ræddi umhverfsisstjórnunarlausnir fyrir haftengdan iðnað, sem miðar meðal annars að því að minnka útblástur frá skipum.
Viðburðurinn um hafið var skipulagður af Hafinu-öndvegissetri í samstarfi við utanríkisráðuneytið. Norðurskautsráðið, að frumkvæði Íslands og í samstarfi við utanríkisráðuneytið, stóð hins vegar að viðburðinum um sótmengun á norðurslóðum og stjórnaði Magnús Jóhannesson, framkvæmdastjóri Norðurskautsráðsins, umræðum.