Umhverfis- og auðlindaráðherra fundar á COP 21
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, mætti til aðildaríkjaþings Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP21) í dag þegar ráðherravika fundarins hófst. Sótti hún fundi og viðburði yfir daginn.
Ráðherra átti m.a. fund með Simon Upton, yfirmanni umhverfissviðs OECD, og ræddu þau m.a. úttekt OECD á umhverfismálum á Íslandi árið 2014 og eftirfylgni hennar. Þar er m.a. að finna hvatningu frá OECD um að efla rafbílavæðingu á Íslandi. Ráðherra nefndi að ríkisstjórnin hefði samþykkt sóknaráætlun í loftslagsmálum rétt fyrir Parísarfundinn þar sem m.a. væri kveðið á um stuðning við uppbyggingu innviða fyrir rafbíla á Íslandi. Ráðherra ræddi einnig við Upton um undirbúning fundar umhverfisráðherra OECD á næsta ári, en slíkir fundir eru haldnir á fjögurra ára fresti.
Ráðherra var viðstödd fjölmennan fund á sérstökum Orkudegi COP21, þar sem forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, flutti eitt af opnunarávörpum. Forseti fagnaði m.a. stofnun Jarðhitabandalagsins, Global Geothermal Alliance, sem Ísland hefur beitt sér fyrir og nær 30 ríki standa nú að, ásamt alþjóðasamtökum og fjármálastofnunum.
Samningaviðræður fara nú fram með aðkomu ráðherra, sem reyna að finna lausnir á helstu ágreiningsmálum, s.s. varðandi metnaðarstig, fjármál o.fl. Staða viðræðna er kynnt af frönsku formennskunni í lok hvers dags.