Frumvarp til nýrra útlendingalaga afhent innanríkisráðherra
Frumvarp til nýrra útlendingalaga hefur verið afhent innanríkisráðherra. Frumvarpið samdi nefnd þingmanna úr öllum flokkum og voru frumvarpsdrögin kynnt á opnum fundi í ágúst síðastliðnum og á vef ráðuneytisins. Frumvarpið hefur tekið smávægilegum breytingum við lokameðferð en unnt er að koma ábendingum til ráðuneytisins til og með 18. desember næstkomandi. Skulu þær sendar á netfangið [email protected].
Óttarr Proppé alþingismaður var formaður þingmannanefndarinnar en auk hans sátu í henni Birgitta Jónsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Össur Skarphéðinsson. Ásamt þeim sat í nefndinni fulltrúi félags- og húsnæðismálaráðherra, Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir. Með nefndinni hafa starfað Erna Kristín Blöndal og Íris Björg Kristjánsdóttir, sérfræðingar í innanríkisráðuneytinu, Sigurbjörg Rut Hoffritz, lögfræðingur hjá Útlendingastofnun, auk sérfræðinga velferðarráðuneytisins, Útlendingastofnunar og Vinnumálastofnunar.
Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á núgildandi lögum um útlendinga nr. 96/2002.