Hoppa yfir valmynd
11. desember 2015 Innviðaráðuneytið

Ríkið bætir 1,5 milljörðum króna við í þjónustu við fatlað fólk

Ráðherrar og fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir samninginn í dag. - mynd
Skrifað var undir samkomulag ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun á þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk og felur það meðal annars í sér 1,5 milljarða viðbótarframlag í verkefnið. Um leið var kynnt skýrsla verkefnisstjórnar um faglegt og fjárlagslegt mat á yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaganna sem átti sér stað í byrjun árs 2011.

Fyrir hönd ríkisins skrifuðu undir samkomulagið þau Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Ólöf Nordal innanríkisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Fyrir hönd sveitarfélaganna skrifuðu undir þeir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Karl Björnsson framkvæmdastjóri.

 

Skrifað var undir samning ríkis og sveitarfélaga í dag.

Félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði verkefnisstjórn í maí 2014 til að meta hvernig yfirfærsla málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga hefði til tekist, jafnt faglega og fjárhagslega, líkt og ákveðið var við yfirfærsluna að skyldi gert og áskilið í lögum. Verkefnisstjórnin lauk störfum nýlega með ýtarlegri skýrslu um faglegt og fjárhagslegt mat á yfirfærslunni. Aftur á móti var ákveðið var að vísa umfjöllun um fjármögnun málaflokksins til framtíðar í farveg beinna viðræðna milli ríkis og sveitarfélaga. Samkomulagið sem undirritað var í dag er niðurstaða þeirra viðræðna. Að því standa félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaganna.

Framlag til málaflokksins eykst um allt að 1,5 milljarða króna

Samkomulag ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun þjónustu sveitarfélaganna við fatlað fólk er tvíþætt. Annars vegar verður tímabundin 0,04% hækkun útsvarshlutfalls sveitarfélaga sem ákveðin var árið 2014 lögfest sem hluti af hámarksútsvari sveitarfélaga sem nemur þar með 1,24% til málaflokksins. Hins vegar er kveðið á um hækkun framlaga í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs. Áætlað er að þessar breytingar leiði til þess að framlög til þjónustu við fatlað fólk á hendi sveitarfélaganna aukist um allt að 1,5 milljarða króna á ári.

Faglegur ávinningur og sveitarfélagastigið sterkara en áður

Í niðurstöðu verkefnisstjórnar um mat á yfirfærslunni segir að kannanir hafi leitt í ljós að markmið yfirfærslunnar um bætta og einstaklingsmiðaðri þjónustu við fatlað fólk hafi náðst og að þjónusta hafi verið samþætt við aðra nærþjónustu líkt og að var stefnt. Sveitarstjórnarstigið hafi styrkst við yfirfærsluna, fjármagn nýtist betur, dregið hafi úr skörun milli stjórnsýslustiga og einfaldari verkaskipting ríkis og sveitarfélaga hafi í meginatriðum gengið eftir.

Það er mat verkefnisstjórnarinnar að sveitarfélögin hafi lagt sig fram um að sinna þjónustu við fatlað fólk af ábyrgð og fagmennsku og að samskipti við notendur og hagsmunasamtök þeirra hafi almennt verið með ágætum. Aftur á móti er bent á að þróun í þjónustu og breytingar á fyrirkomulagi hennar hafi ekki náð að fylgja væntingum á nokkrum þyngstu þjónustusvæðunum. Ástæður þess séu umtalsverð fjölgun þjónustuþega, aukin þjónustuþörf og takmarkað fjármagn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta