Hoppa yfir valmynd
11. desember 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tillaga að lokatexta kynnt á morgun

Fabius, forseti COP21 kynnti ný drög á ellefta tímanum í gærkvöldi.
Fabius, forseti COP21 kynnti ný drög á ellefta tímanum í gærkvöldi.

Ný drög að hnattrænum samningi um aðgerðir í loftslagsmálum, með þátttöku allra ríkja, voru kynnt seint í gærkvöld á aðildaríkjaþingi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP21). Þótt ágætlega miði í viðræðunum á enn eftir að komast að niðurstöðu um atriði er varða m.a. fjármögnun aðgerða, ábyrgðarskiptingu milli ríkja og ríkjahópa og eftirfylgni samningsins.

Drögin voru kynnt á ellefta tímanum í gærkvöldi og var í kjölfarið fundað um nýja textann fram til klukkan sex í morgun að staðartíma. Lögð var fram tillaga að orðalagi sem kveður á um að stefnt sé að því að ekki hlýni meira en um 2 gráður en að reynt verði að gera enn betur og halda hlýnun innan við 1,5 gráður. Enn er nokkur ágreiningur varðandi ábyrgðarskiptingu. Rætt er um að þróuð ríki eigi að vera í fararbroddi við að draga úr losun enda sé ekki hægt að gera sömu kröfur á fátækustu þróunarríkin. Ólík sýn er hins vegar á hve mikla ábyrgð öflugustu og ríkustu löndin sem nú teljast til þróunarríkja eigi að bera. Þá eru fjármálin ágreiningsefni þar sem bæði er rætt um upphæðir og aðferðir við fjármögnun.

Stefnt er að því að lokaútgáfa samnings verði tilbúin í fyrramálið. Samningamenn segja almennt að annar og betri bragur sé á viðræðum nú en oftast áður en ljóst er að menn þurfa að ganga lengra í málamiðlunum en hingað til eigi metnaðarfullur samningur að nást.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir traustvekjandi að sjá hversu vel Frakkar halda vel á málum í viðræðunum. „Ég tel að sú málamiðlun sem Fabius, formaður þingsins, hefur sett fram varðandi kröfu smáeyjaríkja um 1,5 gráðu markmiðið sé góð og skynsamleg lending. Mikilvægt er að tryggt sé að ríkustu löndin úr hópi þróunarríkja taki á sig aukna ábyrgð. Almennt einkennir meiri sátt, friður og metnaður þessar viðræður en oft áður. Svo virðist sem hin hefðbundna tvískipting þar sem ríki heims skiptast í iðnríki annars vegar og þróunarríki hins vegar sé ekki jafn ríkjandi og áður í ljósi þess að geta þróunarríkja hefur vaxið með aukinni velmegun. Það er sannarlega sögulegt ef heimsmynd okkar breytist hér í París.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta