Samningalota TiSA 29. nóvember – 4. desember 2015
Samningalota í TiSA-viðræðunum var haldin í Genf dagana 29. nóvember - 4. desember 2015. Af Íslands hálfu tóku Bergþór Magnússon og Finnur Þ. Birgisson þátt í lotunni. Í lotunni var fjallað um drög að textum um innlendar reglur (
domestic regulations), gagnsæi (
transparency), fjármálaþjónustu (
financial services) og för þjónustuveitenda (
mode 4). Auk þess fóru fram viðræður milli ríkja varðandi tilboð um markaðsaðgang.
Fyrir samningslotuna höfðu verið sett tiltekin markmið um framþróun á fyrrgreindum samningstextum, í samræmi við áætlun sem gerð hafði verið í samningalotu sem haldin var í októbermánuði. Enda þótt ekki hafi tekist að ná þeim markmiðum að fullu gengu viðræðurnar vel og náðist samstaða um ýmis atriði í fyrrgreindum textum. Þannig eru einungis fáein atriði útistandandi í samningstextanum um gagnsæi. Einnig náðist samstaða um nokkur útistandandi atriði varðandi orðalag í textum um innlendar reglur, fjármálaþjónustu og för þjónustuveitenda, en þó er lengra í land með að takast megi að ljúka viðræðum um drög að þeim samningstextum.
Þá voru haldnir nokkrir tvíhliða fundir milli einstakra ríkja í TiSA-viðræðunum, þar sem tækifæri gafst til að ræða tilboð viðkomandi ríkja um markaðsaðgang, en nú hafa öll ríkin lagt fram tilboð sín um aðgang fyrir þjónustuveitendur hinna ríkjanna að eigin markaði.
Staðfest hefur verið að Uruguay og Paraguay hafa hætt þátttöku í viðræðunum.
Ákveðnar voru dagsetningar fyrir nokkrar samningalotur á árinu 2016 og munu þær fara fram í Genf dagana 1.-5. febrúar, 11.-15. apríl, 30. maí – 3. júní, 11.-15. júlí og 19.-23. september.