Samstarfssamningur við Mannréttindaskrifstofu Íslands
Í dag var undirritaður samstarfssamningur til þriggja ára milli utanríkisráðuneytisins og Mannréttindaskrifstofu Íslands en ráðuneytið og hún hafa átt farsælt samstarf á sviði alþjóðlegra mannréttindamála frá árinu 2008.
Í samningnum sem Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri og Bjarni Jónsson, formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofunnar, undirrituðu er gert ráð fyrir að hún haldi áfram að sinna verkefnum Uppbyggingarsjóðs EES er lúta að mannréttindum, aðstoði við undirbúning funda um mannréttindamál hjá alþjóðastofnunum og standi að einum til tveimur fundum árlega með utanríkisráðuneytinu til að auka umræðu og meðvitund innanlands um alþjóðleg mannréttindi.
Í samningnum er gert er ráð fyrir samtals 10,5 m.kr. framlagi til Mannréttindaskrifstofunnar á tímabilinu.