Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2016 Utanríkisráðuneytið

Nokkrar staðreyndir vegna umræðu um þvingunaraðgerðir og Rússland

Utanríkisráðuneytið telur ástæðu til að minna á nokkrar staðreyndir um þvingunaraðgerðir og Rússland vegna fullyrðinga formanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í umræðuþættinum Í vikulokin á RÚV laugardaginn 9. janúar sl.

Fram kemur í máli formanns SFS að hagsmunaaðilar og Alþingi hafi ekki frétt að Ísland styddi þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi vorið 2014 fyrr en 4-5 mánuðum síðar. Einnig að Alþingi og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafi fyrst heyrt af því í rússneskum fjölmiðlum í ágúst 2015 að Ísland hafi framlengt þvingunaraðgerðir gagnvart Rússlandi.

Dagana 6., 17. og 20. mars 2014 tilkynntu Bandaríkin um þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi vegna Úkraínudeilunnar. Hinn 12. mars 2014 átti utanríkisráðuneytið samráðsfund með framkvæmdastjóra SFS og 14. mars 2014 var fjallað um málið í ríkisstjórn. Hinn 17. mars 2014 gaf utanríkisráðuneytið út fréttatilkynningu þar sem lýst er stuðningi við þvingunaraðgerðir Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gegn Rússlandi vegna Úkraínudeilunnar og tilkynnt að Ísland muni einnig beita slíkum þvingunaraðgerðum að höfðu samráð við utanríkismálanefnd. Það samráð fór fram næsta dag, 18. mars. Hinn 21. mars 2014 voru fyrstu þvingunaraðgerðir Íslands vegna Úkraínudeilunnar birtar í Stjórnartíðindum.

Auk fundarins 18. mars 2014 hefur ráðuneytið upplýst utanríkismálanefnd Alþingis reglulega um framvindu mála í Úkraínu. Þátttaka í alþjóðlegum þvingunaraðgerðum hefur verið rædd á fjölmörgum fundum með nefndinni og eindreginn stuðningur verið í utanríkismálanefnd við stefnu stjórnvalda. Tilkynnt var opinberlega um stuðning við aðgerðirnar í mars 2014, auk þess sem fjallað var um hann á þingi og í fjölmiðlum, t.d. í tengslum við ferð ráðherra til Úkraínu í sama mánuði.

Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi voru upplýstir á fyrri stigum um þróun mála, stefnu Íslands og ákvarðanir, m.a. átti utanríkisráðherra sérstaka fundi með þeim. Haldnir voru tveir fundir með hagsmunaaðilum og Íslandsstofu um mögulegar aðgerðir ef markaðir í Rússlandi skyldu lokast. Í janúar 2015 varð fréttaflutningur í Rússlandi t.d. til að auka áhyggjur um að Ísland kynni að verða fyrir barðinu á viðskiptabanni Rússa líkt og Noregur og var þá fundað með útflytjendum. Samsvarandi fundur var haldinn 5. ágúst 2015 þar stjórnvöld ítrekuðu vilja sinn til að aðstoða við að leita uppi nýja markaði og greiða fyrir viðskiptum.

Ítrekað kemur fram í máli formanns SFS að þvingunaraðgerðirnar gagnvart Rússland séu vopnasölubann.

Aðgerðirnar sem studdar eru af nærri 40 ríkjum eru mun víðtækari. Framan af snerust þær einkum um takmarkanir á ferðafrelsi tiltekinna einstaklinga og frystingu fjármuna þeirra og tiltekinna fyrirtækja, en eftir að farþegavélin var skotin niður yfir Úkraínu var hert á aðgerðunum. Einstaklingum og fyrirtækjum var bætt á bannlista, aðgangur rússneskra aðila að lánamörkuðum takmarkaður, viðskipti með hergögn bönnuð, viðskipti bönnuð með vörur sem hafa tvíþætt notagildi og viðskipti takmörkuð varðandi þýðingarmikla tækni, m.a. í olíu- og orkugeiranum.

Ítrekað kemur fram í máli formanns SFS að engin samstaða sé um þvingunaraðgerðirnar meðal Evrópuríkja og einstök ríki eigi blómleg viðskipti við Rússland þrátt fyrir þvingunaraðgerðir og gagnaðgerðir Rússa í formi innflutningsbann .

Evrópusambandið hefur einróma samþykkt allar aðgerðir sem farið hefur verið í, nú síðast með framlengingu aðgerðanna í desember 2015. Öll Evrópuríki eiga áfram í verulegum viðskiptum við Rússland enda beinist innflutningsbann Rússa að matvælum. Aðgerðir Rússa ná ekki til fjölda vara, t.a.m. til þjónustu nema að takmörkuðu leyti. Þetta á líka við um Ísland sem á áfram í nokkrum viðskiptum við Rússland eins og sjá má t.d. í þessari frétt.

Í máli formanns SFS kemur fram að Bandaríkjastjórn hafi gefið út undanþágu á þvingunaraðgerðirnar vegna sölu á varahlutum í rússneskar herþyrlur.

Þetta er ekki rétt. Sólarhring áður en þættinum Í vikulokin var útvarpað leiðrétti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi rangfærslur SFS sem birtust í blaðagrein varðandi sölu varahluta í þyrlur til Afghanistan. Í grein sendiherrans kemur skýrt fram að það hafi ekki haft neitt með þvinganir gegn Rússum að gera. Samt heldur formaður SFS áfram að fara með rangfærslur.

Formaður SFS fullyrðir að auk innflutningsbanns Rússa muni Tollabandalag Rússlands, Belarus og Kákasus (væntanlega er átt við Kasakstan) loka á innflutning frá Íslandi.

Ekki liggur fyrir að svo muni að fara auk þess sem slík lokun sem vísað var til myndi beinast að tilteknum fyrirtækjum en ekki þjóðríkjum. Fjöldi annarra fyrirtækja geta haldið áfram að eiga viðskipti við Belarus og Kasakstan líkt og þau eiga við Rússland í dag. Dæmið sem vísað er til í viðtalinu sýnir þó greinilega hversu ótraustur markaðurinn er á þessu svæði og hve mjög markaðsaðgangur er háður duttlungum embættismanna.

Formaður SFS staðhæfir að þvingunaraðgerðirnar gagnvart Rússlandi séu ekki aðgerð Atlantshafsbandalagsins og að það sé t.a.m. ástæða þess að Tyrkir séu ekki í hópi þeirra ríkja sem beita Rússland aðgerðum. Þá standi Sameinuðu þjóðirnar ekki að aðgerðunum.

Um grundvallarmisskilning er að ræða. Atlandshafsbandalagið (NATO) getur ekki beitt efnahagslegum þvingunaraðgerðum enda varnarbandalag. Það getur hins vegar stutt þvingunaraðgerðir ESB, Bandaríkjanna og annarra ríkja. Allir þjóðarleiðtogar Atlantshafsbandalagsins, þ.m.t. Tyrklands, samþykktu t.a.m. einróma lokayfirlýsingu síðasta leiðtogafundar NATO, haustið 2014, þar sem lýst er yfir stuðningi við allar þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi.

Bandaríkin urðu fyrst til þess að beita Rússland þvingunaraðgerðum vegna Úkraínudeilunnar í mars 2014, og hafa Bandaríkin, ESB og fleiri ríki átt náið samráð um umfang og tímasetningu þessara aðgerða. Í mars 2014 tilkynntu Bandaríkin, ESB og Kanada öll hliðstæðar þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi en áður hafði verið gripið til ákveðinna aðgerða gagnvart einstaklingum í Úkraínu. Alls standa nú tæplega fjörtíu ríki að aðgerðum gegn Rússlandi. Bandaríkin, Kanada, 28 ríki Evrópusambandsins, Ísland, Noregur, Japan, Ástralía, Liechtenstein og Svartfjallaland. Sviss innleiðir sömu aðgerðir og Tyrkland sætir nú einnig gagnaðgerðum Rússlands.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna stendur ekki að þvingunaraðgerðunum, enda er Rússland með neitunarvald í ráðinu.

Í máli formanns SFS kemur fram íslensk stjórnvöld haldi því fram að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu kynni að vera í uppnámi ef landið styddi ekki þvingunaraðgerðir.

Þetta er ekki rétt, stjórnöld hafa ekki haldið slíku fram.

Það að rjúfa samstöðu vestrænna ríkja hlyti hins vegar að teljast meiriháttar frávik frá utanríkisstefnu Íslands. Það væri ábyrgðarhluti sem kallaði, í besta falli, á gagnrýnar spurningar nánustu samstarfsþjóða um vegferð íslenskra stjórnvalda í alþjóðasamskiptum og trúverðugleika sem bandamanns. Slíkt hefði vafalaust neikvæð áhrif á samskipti við okkar helstu bandamenn, þ.e. þær þjóðir sem Ísland á mesta samleið með og sameiginlega hagsmuni. Viðbrögð samstarfsríkja gætu einnig verið harðari. Það liggur t.a.m. fyrir að Bandaríkin hafa víðtækar lagaheimildir til að þess að beita fyrirtæki sem eru í samskiptum við rússnesk fyrirtæki á bannlista Bandaríkjanna viðurlögum og útiloka þau frá viðskiptum við bandarísk fyrirtæki. Kunnugt er um dæmi þess að sænsk og finnsk fyrirtæki hafi verið sett bannlista í Bandaríkjunum og allar eigur þeirra í Bandaríkjunum frystar. Enginn bandarískur aðili getur átt viðskipti við þessi fyrirtæki. Ekki er hægt að útiloka að slíkt gæti einnig beðið íslenskra fyrirtækja ef horfið er frá þátttöku í þvingununum.

Í máli formanns SFS er dregið í efa að Ísland hafi sjálfstæða utanríkisstefnu og að ákvarðanir stjórnvalda séu byggðar á hagsmunum Íslands

Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur. Ísland hefur sannarlega sjálfstæða utanríkisstefnu og á henni byggist einmitt sú ákvörðun að styðja þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi vegna framferðis Rússlandsstjórnar gagnvart Úkraínu.

Á sömu sjálfstæðu utanríkisstefnu hafa byggst ótal ákvarðanir allt frá stofnun lýðveldisins sem snerta alþjóðamál og samstarf við vestrænar þjóðir, t.d. útfærslur landhelginnar, aðild að viðskiptasamningum, veiðar á alþjóðlegum hafssvæðum og svo mætti lengi telja. Þessi dæmi hafa verið grundvöllur íslensks sjávarútvegs til lengri og skemmri tíma.

Í máli formanns SFS kemur fram að 50% af makrílsölu Íslands hafi verið til Rússlands og að Íslendingar hafi verið stærsti útflytjandi af makríl til Rússlands í heiminum.

Rétt er að benda á að á tólf mánaða tímabili, frá ágúst 2014 til ágúst 2015 beittu Rússar gagnaðgerðum í formi innflutningsbanns á matvæli gegn hartnær öllum þeim tæplega 40 ríkjum sem í ríkjahópnum eru, nema Íslandi. Íslenskir útflytjendur, auk færeyskra og grænlenskra, sátu því einir að Rússlandsmarkaði í tólf mánuði áður en innflutningsbann Rússa var útvíkkað og Ísland sett á bannlista og juku verulega útflutning sinn til Rússlands.

Í máli formanns SFS kemur fram að utan Rússlands finnist enginn markaður fyrir frystar loðnuafurðir.

Þessi staðhæfing stenst ekki. Fyrstu 11 mánuði ársins 2015 var seld fryst loðna og loðnuhrogn til Kína fyrir um 1,3 milljarða króna. Á árunum 2012 og 2013 var fryst loðna seld til Úkraínu fyrir hátt í 4 milljarða. Á árunum 2014 og 2015 var sama vara seld á Úkraínumarkað fyrir um hálfan milljarð króna.

Formaður SFS staðhæfir að Norðmenn hafi fengið niðurfellingu á tollum inn í Evrópusambandið fyrir makrílafurðir en að Ísland hafi ekki fengið slíka niðurfellingu þrátt fyrir umleitanir þar um.

Þetta er ekki rétt. Evrópusambandið féllst á að skipta á tollkvótum Noregs í síld gegn auknum kvóta í makríl. Á sama tíma var samið um aukna kvóta í öðrum tegundum fyrir Ísland sem m.a. mun styðja við landvinnslu á karfa.

Formaður SFS segir íslenska þjóðarbúið vera að taka á sig hlutfallslega tuttugufalt stærri skell en hin hartnær 40 ríkin sem standa að þvingunaraðgerðir gagnvart Rússlandi.

Aldrei hefur verið dregið í efa að viðskiptabann Rússlands gegn Íslandi hafi neikvæðar afleiðingar hér á landi. Að þær afleiðingar séu tuttugufalt stærri en áhrifin á önnur ríki er órökstutt. Vert er að benda á að afkoma sjávarútvegs árið 2015 er meðal þess besta í lýðveldissögunni auk þess sem útflutningsverðmæti uppsjávarafurða á árinu 2015 er litlu minna en árið 2014.

Formaður SFS segir að til Íslands hafi enginn háttsettur bandarískur ráðamaður komið í mörg ár.

Hér er ekki rétt með farið. Síðast í september heimsótti Robert Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Ísland og í október var Benjamin Ziff, aðstoðarráðherra úr utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna staddur hér á landi í tilefni af Hringborði norðurslóða. Það hefur raunar ítrekað dregið að bandaríska ráðamenn áður, t.d. öldungardeildarþingmanninn Lisu Murkowski og Papp aðmírál, sérstakan fulltrúa Bandaríkjaforseta í málefnum norðurslóða. Orkunefnd bandarísku öldungardeildarinnar heimsótti Ísland á síðasta ári og Victoria Nuland, varautanríkisráðherra Bandaríkjanna sömuleiðis.

Einnig má nefna að Condoleezza Rice, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna heimsótti Ísland árið 2008 og Colin Powell, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, árið 2002 í tengslum við utanríkisráðherrafund NATO.

Hins vegar er ljóst að einstaka stefnumál Íslands, líkt og hvalveiðar, hafa haft áhrif á tíðni heimsókna bandarískra ráðamanna. Ísland rekur hins vegar sjálfstæða utanríkisstefnu og lætur ekki undan þess konar þrýstingi, enda grundvallast íslensk utanríkisstefna á virðingu fyrir alþjóðalögum. Það á við um bæði rétt til hvalveiða sem og framferði rússneskra yfirvalda í Úkraínu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta