Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2016 Utanríkisráðuneytið

Heildrænt mat á hagsmunum Íslands vegna þvingunaraðgerða

Utanríkisráðuneytið hefur gert heildrænt mat á hagsmunum Íslands með tilliti til þvingunaraðgerða gagnvart Rússlandi vegna deilunnar um Krímskaga og austurhluta Úkraínu og gagnaðgerða Rússlands sem felst í banni við innflutningi á matvælum. Hagsmunamatið tekur til bæði utanríkispólitískra og efnahagslegra þátta.

Í samantekt á mati á hagsmunum Íslands eru meðal annars eftirfarandi niðurstöður:

· Virðing fyrir alþjóðalögum hefur ávallt verið ein af grundvallarstoðum utanríkisstefnu Íslands og afstaða Íslands til álitamála varðandi landamæri og friðhelgi ríkja hefur ætíð byggst á alþjóðalögum. Sem smáríki sem byggir afkomu sína að miklum hluta á fiskveiðum á Ísland allt undir því að alþjóðalög og sáttmálar séu virtir.

· Með því að taka afstöðu með aðgerðum vestrænna ríkja gagnvart Rússlandi hefur Ísland sýnt samstöðu með ríkjum sem standa gegn alvarlegum brotum á alþjóðalögum og sáttmálum sem endurspegla þau grunngildi sem íslensk utanríkisstefna stendur fyrir.

· Samvinna og samleið með vestrænum lýðræðisríkjum hefur verið leiðarljós utanríkisstefnu Íslands í áratugi. Það hefur ítrekað sýnt sig á lýðveldistímanum að hagsmunum Íslands er best borgið í hópi og samstöðu þessara ríkja.

· Þvingunaraðgerðir á borð við þær sem Rússar hafa verið beittir í kjölfar átakanna í Úkraínu eru eitt af fáum haldbærum skrefum sem ríki eða ríkjahópar geta gripið til í kjölfar diplómatískra aðgerða án þess að beita valdi.

· Þvingunaraðgerðir vestrænna ríkja eru sértækar í eðli sínu og hitta ekki fyrir rússneskan almenning og viðskiptahagsmuni nema að takmörkuðu leyti – öfugt við refsiaðgerðir Rússlands sem eru altækar.

· Þegar ákvörðun Rússlands um innflutningsbann var tekin í ágúst sl. var fljótlega gripið til mótvægisaðgerða af hálfu íslenskra stjórnvalda til að milda áhrif bannsins. Þannig var veitt heimild til útgerða að millifæra stærri hluta af aflaheimildum á makríl til næsta árs. Svo virðist sem tekist hafi að selja allan makríl sem veiddur hafi verið árið 2015 og því engar birgðir í landinu.

· Óvissa ríkir um áhrif innflutningsbanns Rússlands fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, sérstaklega ef það mun dragast á langinn. Hins vegar er full ástæða til að ætla, til lengri tíma litið, að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, sem hafa sýnt mikla aðlögunarhæfni og sveigjanleika í markaðsstarfi, muni finna nýja markaði fyrir þær vörur sem hafa til þessa verið seldar til Rússlands. Er margt sem bendir til þess að fyrirtækin hafi nú þegar náð að aðlaga sig að þeim breyttu aðstæðum.

· Að rjúfa samstöðu vestrænna ríkja teldist meiriháttar frávik frá utanríkisstefnunni og ábyrgðarhluti sem kallaði, í besta falli, á gagnrýnar spurningar vinaþjóða um vegferð íslenskra stjórnvalda í alþjóðasamskiptum og orðspor Íslands sem traust bandalagsríki myndi bíða hnekki. Hagsmunagæsla við okkar helstu vina- og bandalagsþjóðir yrði þyngri í vöfum.

· Hefði Ísland ekki tekið þátt í þeim þvingunaraðgerðum sem gripið hefur verið til gagnvart Rússlandi væri það í fyrsta sinn í sögu íslenska lýðveldisins að landið hefði kosið að fara eigin leiðir og þar með rofið samstöðu vestrænna ríkja í málefnum sem allir eru sammála um að varða grundvallaratriði í öryggismálum Evrópuríkja.

Mat á hagsmunum Íslands

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta