Samningur um aðkomu Rauða krossins að móttöku flóttafólks
Félags- og húsnæðismálaráðherra og formaður Rauða kross Íslands (RKÍ) undirrituðu í dag samning sem kveður á um hlutverk RKÍ varðandi móttöku, aðstoð og stuðning við sýrlenska flóttafólkið sem væntanlegt er til landsins frá Líbanon í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Kostnaður vegna samningsins nemur 41 milljón króna.
Móttaka flóttafólksins felur í sér formlegt samstarf milli velferðarráðuneytisins, mótttökusveitarfélaganna, þ.e. Akureyrarkaupstaðar, Hafnarfjarðarbæjar og Kópavogsbæjar og RKÍ, þar sem hver aðili gegnir skilgreindu hlutverki við móttöku flóttafólksins, þjónustu við það og stuðning.
Meginhlutverk RKÍ samkvæmt samningnum í umboði velferðarráðuneytisins er að hafa umsjón með stuðningsfjölskyldum flóttafólksins, undirbúa íbúðir flóttafjölskyldna fyrir komu þeirra og aðstoða þær við að koma sér upp nauðsynlegu innbúi, veita almenna liðveislu, gæta hagsmuna fólksins og veita því aðstoð við alþjóðlega leitarþjónustu fyrir flóttafólk ef þess gerist þörf. RKÍ skal einnig taka þátt í fræðslu- og kynningarstarfi fyrir samstarfsaðila verkefnisins í samvinnu við samstarfshópinn.
Í lok nóvember sl. voru undirritaðir samningar milli velferðarráðuneytisins og móttökusveitarfélaganna þriggja um móttöku flóttafólksins sem væntanlegt er síðar í þessum mánuði. Samkvæmt samningunum er gert ráð fyrir að greiðslur ríkisins til sveitarfélaganna á samningstímanum nemi 173,4 milljónum króna.
Í viðmiðunarreglum flóttamannanefndar um móttöku og aðstoð við flóttafólk er staða flóttafólks og réttindi þeirra skilgreind, fjallað um inntak þeirrar aðstoðar sem flóttafólk skal njóta fyrst eftir komu sína til landsins og gerð grein fyrir kostnaðarskiptingu vegna þess milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga. Í grófum dráttum snúa þessi verkefni að því að tryggja fólki húsnæði, félagslega ráðgjöf, menntun og fræðslu, heilbrigðisþjónustu, aðstoð við atvinnuleit og fjárhagsaðstoð til framfærslu.
Nánari upplýsingar: