Ráðherra sækir ríkjaráðstefnu um endurnýjanlega orkugjafa í Abu Dhabi
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tekur um helgina þátt í ríkjaráðstefnu IRENA, stofnunar um endurnýjanlega orkugjafa, í Sameinuðu arabísku fursadæmunum.
Í ræðum sínum lagði ráðherra áherslu á að efndir fylgi orðum í kjölfar loftslagssamningsins, sem undirritaður var í París í síðasta mánuði. Gunnar Bragi fjallaði ennfremur um mikilvægi jarðhita í orkubúskapi heimsins og möguleika hans á heimsvísu. Kom ráðherra inn á reynslu Íslands og sérþekkingu í því tilliti. Þá var fjármögnun loftslagsverkefna gerð að sérstöku umtalsefni og varpaði Gunnar Bragi ljósi á gríðarlegar niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti á heimsvísu sem aftrar framþróun og fjármögnun á endurnýjanlegum orkugjöfum.
Ísland gerðist stofnaðili að IRENA árið 2011 og eru fullgild aðildarríki alls 145 talsins. IRENA hefur aðsetur sitt í Abu Dhabí.
Ræða utanríkisráðherra um fjármögnun á endurnýjanlegum orkugjöfum