Koma flóttafólks til Íslands á morgun
Fyrsti hópur sýrlenska flóttafólksins sem boðin hefur verin búseta hér á landi kemur á morgun með flugi frá Beirút. Hópurinn samanstendur af sex fjölskyldum, þar af eru 13 fullorðnir og 22 börn.
Fjórar þessara fjölskyldna munu setjast að á Akureyri en tvær þeirra í Kópavogi. Líkt og áður hefur komið fram gerði velferðarráðuneytið samninga við Akureyri, Kópavog og Hafnarfjörð í nóvember síðastliðnum um móttöku 55 sýrlenskra flóttamanna. Ráðgert var að fólkið kæmi til landsins í lok desember sl. en af óviðráðanlegum ástæðum reyndist það ekki mögulegt.
Af fjölskyldunum sex sem koma á morgun munu fjórar þeirra setjast að á Akureyri, samtals 23 einstaklingar, en tvær í Kópavogi. Barnshafandi kona sem fyrirhugað var að kæmi á morgun ásamt fjölskyldu sinni reyndist ekki fær um að takast á hendur ferðalagið og frestast því koma þeirra til landsins.
Þrjár fjölskyldur til viðbótar sem höfðu lýst áhuga á að setjast að á Íslandi sáu sér ekki fært að koma. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur í samvinnu við íslensk stjórnvöld undirbúið komu hóps flóttafólks í þeirra stað. Stefnt er að því að sá hópur komi innan fárra vikna og að fólkið setjist að í Hafnarfirði og Kópavogi.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir gleðiefni að loksins sé komið að því að bjóða flóttafólkið velkomið í verki: „Ég veit að sveitarfélögin hafa undirbúið sig vel á allan hátt og munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að fólkinu líði vel og finni að það er meðal vina. Rauði krossinn mun miðla af reynslu sinni og þekkingu í sama skyni og það er virkilega ánægjulegt að vita hvað sjálfboðaliðar hafa reynst boðnir og búnir að bjóða fram stuðning sinn og aðstoð við að taka á móti fólkinu og aðstoða það meðan það er að átta sig á aðstæðum hér og kynnast samfélaginu.“
Eygló leggur áherslu á að móttaka flóttafólks verði áfram viðfangsefni íslenskra stjórnvalda og að í undirbúningi sé móttaka fleiri hópa á þessu ári.
Tengdar fréttir:
- 25/11/2015: Undirritun samninga við sveitarfélög um móttöku flóttafólks
- 14/12/2015: Komu flóttafólks seinkar
- 12/1/2016: Samningur um aðkomu Rauða krossins að móttöku flóttafólks