Nýjar reglur um ráðstöfun tekna af sölu veiðikorta
Nýjar verklagsreglur hafa tekið gildi vegna ráðstöfunar tekna af sölu veiðikorta. Helstu breytingar eru þær að aukin áhersla verður lögð á að vinna að viðvarandi verkefnum á sviði veiðistjórnunar og sjálfbærra veiða, s.s. vöktunar veiðistofna auk smærri skilgreindra verkefna í þágu veiðistjórnunar. Einnig er sú nýjung að sett er á fót sérstök ráðgefandi nefnd, Samstarfssnefnd um sjálfbærar veiðar.
Með reglunum verður breyting frá núverandi kerfi árlegra úthlutana úr Veiðikortasjóði. Í stað þess að auglýsa sérstaklega eftir umsóknum um styrki fer þorri tekna, eða að lágmarki 50%, af sölu veiðikorta nú til verkefna í þágu veiðistjórnar sem lúta að stofnstærðarmati og mati á veiðiþoli helstu veiðistofna í því skyni að tryggja sem best sjálfbærar veiðar. Gerðar verða áætlanir og samningar um skipulag og fjármögnun þessara verkefna til þriggja ára í senn og byggir val verkefnanna á greinargerð Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa. Sérstök áhersla fyrstu árin, þ.e. tímabilið 2016-2018, verður á veiðitegundir sem eiga undir högg að sækja, eru undir miklu veiðiálagi og eru mikilvægar fyrir veiðimenn. Verða niðurstöður birtar í árlegri skýrslu um viðkomandi nytjastofn/a. Umhverfisstofnun gerir árlegar tillögur til ráðherra um tilhögun og fjármögnun slíkra áætlana. Með þessu er leitast við að tryggja sjálfbærni veiðanna og hefur verið unnið að þessum breytingum í góðu samráði við skotveiðimenn.
Þá verður hluta veiðikortatekna ráðstafað árlega til smærri verkefna í þágu veiðistjórnunar þar sem áhersla verður lögð á sértækar rannsóknir. Mun Umhverfisstofnun í samráði við samstarfsnefnd um sjálfbærar veiðar gera árlega tillögu til ráðherra um rannsóknir sem fjármagnaðar verða með þessum hætti. Í kjölfarið verður leitað eftir framkvæmdaaðila eftir eðli verkefnis. Ráðherra sér jafnframt um úthlutun þessa fjárs.
Loks fer hluti tekna af sölu veiðikorta til reksturs veiðikortakerfisins, en markmiðið er að það sé rekið á sem hagkvæmastan hátt. Munu Umhverfisstofnun og umhverfis- og auðlindaráðuneytið leita nýrra leiða til að halda þessum kostnaði í lágmarki.
Með þessum breytingum er stigið skref í átt að skýrari stefnumörkun og markvissari ráðstöfun tekna af veiðikortum í þágu sjálfbærra veiða til framtiðar.
Verklagsreglur vegna ráðstöfunar tekna af sölu veiðikorta (pdf skjal)