Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2016 Utanríkisráðuneytið

Undirritun yfirlýsingar um gagnkvæm upplýsingaskipti í skattamálum við Sviss

Sendiherrar Sviss og Íslands.
Undirritun yfirlýsingar í Osló þann 18. janúar 2016. Hermann Ingólfsson sendiherra Íslands og Rudolf Knoblauch sendiherra Sviss.

Íslensk og svissnesk stjórnvöld hafa undirritað yfirlýsingu þar sem fram kemur að ríkin ætli að hefja reglubundin gagnkvæm skipti á upplýsingum á árinu 2018 vegna tekjuársins 2017. Jafnframt kemur fram að ríkin muni taka upp viðræður um aukin samskipti á sviði fjármálaþjónustu.

Fyrirhuguð upplýsingaskipti byggja á sameiginlegri yfirlýsingu sem hátt í hundrað ríki hafa undirritað þar sem þau skuldbinda sig til þess að taka upp samræmdan staðal OECD um reglubundin upplýsingaskipti um fjármunalegar tekjur og eignir skattgreiðenda, bæði einstaklinga og lögaðila. Nánari útlistun á því hvað felst í upplýsingaskiptunum er að finna í reglugerð nr. 1240/2015 um framkvæmd áreiðanleikakannana vegna upplýsingaöflunar á sviði skattamála.

Á næstu mánuðum munu stjórnvöld vinna að nánari útfærslu slíkra reglubundinna upplýsingaskipta en OECD hefur eftirlit með því að þau ríki sem hafa skuldbundið sig til að safna og veita upplýsingar á grundvelli hins samræmda staðals uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til tæknimála og til að tryggja öryggi upplýsinganna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta