Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2016 Utanríkisráðuneytið

Þvingunaraðgerðum gegn Íran aflétt

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra undirritaði í dag reglugerð sem afléttir öllum efnahagslegum og fjárhagslegum þvingunaraðgerðum gegn Íran sem tengjast kjarnorkumálum. Þetta er gert í kjölfar þess að Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefur staðfest að Íran uppfylli nú nauðsynleg skilyrði um skuldbindingar á sviði kjarnorkumála, sem sett voru fram í sameiginlegri heildarframkvæmdaráætlun 14. júlí s.l. Að henni stóðu Bandaríkin, Bretland, Kína, Frakkland, Rússland, Þýskaland og Evrópusambandið.

„Það er ástæða til að fagna þessum áfanga, sem er sönnun þess að viðskiptaþvinganir geta haft raunveruleg áhrif á alþjóðavettvangi. Alþjóðlegur samtakamáttur og samningagerð eru mun farsælli leið til lausnar á deilumálum en vopnaskak,“ segir Gunnar Bragi.

Þvingunaraðgerðirnar sem eru felldar niður varða fjármagnshreyfingar, banka- og tryggingamál, olíu, gas og efni unnin úr jarðolíu, skipaflutninga, skipasmíðar og flutninga, gull, aðra eðalmálma, peningaseðla og mynt, málma, hugbúnað og frystingu fjármuna og ferðabann, sem er aflétt á vissa einstaklinga og lögaðila.

Ekki eru felldar niður þvingunaraðgerðir sem varða vopnaviðskipti, eldflaugatækni, frystingu fjármuna og ferðabann á tiltekna einstaklinga og lögaðila, vissar vörur, tækni og þjónustu á kjarnorkusviði sem verða háð útflutningsleyfum, vissa málma og hugbúnað á kjarnorkusviði sem verða háð útflutningsleyfum.

Allar þvingunaraðgerðir sem varða mannréttindabrot Írans, stuðning Írans við hryðjuverkastarfsemi og aðrar aðgerðir sem ekki tengjast kjarnorkumálum gilda áfram.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta