Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2016 Utanríkisráðuneytið

Starfshópur til að fara yfir lög um framkvæmd þvingunaraðgerða

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur ákveðið setja á fót starfshóp til að fara yfir lög um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og mat á þátttöku Íslands í þeim. Hópnum er ætlað að fara yfir það ferli sem viðhaft er við slíkt mat og skoða sérstaklega hvernig að málum er staðið í helstu nágrannaríkjum Íslands.

Utanríkisráðherra skipar tvo fulltrúa í hópinn án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður hópsins. Aðrir fulltrúar verða skipaðir eftir tilnefningu forsætisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hópnum verður m.a. falið að hafa samráð við þá aðila sem geta átt hagsmuna að gæta af framkvæmd þvingunaraðgerða. Auk þess verður sérstakt samráð haft við utanríkismálanefnd Alþingis.

Á undanförnum árum hefur þvingunaraðgerðum verið beitt í auknum mæli, einkum af hálfu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Gildandi lög um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, nr. 93/2008, eru fyrstu lögin sem setja heildarramma um framkvæmd aðgerða af þessu tagi. Skylt er að hrinda ályktunum öryggisráðsins í framkvæmd en þátttaka í öðrum aðgerðum er valkvæð. Eins og í nágrannaríkjunum gera lögin ráð fyrir að þvingunaraðgerðir séu innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum, enda verður alþjóðasamfélagið að geta brugðist hratt við aðstæðum sem ógna friði og öryggi. Um þátttöku í öðrum aðgerðum en þeim sem stafa frá öryggisráðinu ber þó að hafa samráð við utanríkismálanefnd.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta