Blóðgjöf er lífgjöf
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra veitti í gær Gísla Þorsteinssyni viðurkenningarskjal fyrir að hafa gefið blóð 175 sinnum. Árlega hefur Blóðbankinn samband við 8 – 10.000 virka blóðgjafa sem gefa samtals um 15.000 blóðgjafir. Til að mæta þeirri þörf sem er að jafnaði fyrir hendi þarf bankinn á að halda um 16.000 blóðgjöfum á ári.
Blóðgjafafélag Íslands heiðrar árlega þá sem ná tilteknum fjölda blóðgjafa og í reglum félagsins eru tilgreindar viðurkenningar fyrir 125 skipti og fyrir 150 skipti. Þeim fer hins vegar fjölgandi sem farið hafa yfir þessi mörk. Má þar nefna Guðbjörn Magnússon sem árið 2014 fékk viðurkenningu heilbrigðisráðherra fyrir að hafa gefið blóð 175 sinnum, sem þá var Íslandsmet, og í fyrra fékk Ólafur Helgi Kjartansson, þáverandi formaður Blóðgjafafélagsins viðurkenningu fyrir 175 blóðgjafir.
Með viðurkenningarskjalinu sem ráðherra afhenti nýjasta blóðgjafamethafanum, Gísla Þorsteinssyni í gær er Gísla vottuð virðing og þakklæti fyrir ómetanlegt framlag í þágu sjúklinga.